Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, svarar ósáttum dómurum.
Eins og Mannlíf hefur fjallað um ríkir mikil óánægja meðal knattspyrnudómara á Íslandi. Þeir telja að þeim sé sýnd óvirðing og vanþakklæti fyrir erfið störf sem eru illa borguð. Mannlíf ræddi um helgina við reynslumikinn og starfandi dómara sem hafði ýmislegt út á að setja varðandi KSÍ og sagði hann að mikil reiði væri í dómurum út af Arnars-málinu svokallaða.
Sjá nánar: Íslenskur dómari opnar sig um Arnars-málið og KSÍ: „Sverta ímynd knattspyrnunnar“
Mannlíf lagði nokkrar spurningar um málið fyrir Klöru Bjartmarz, framkvæmdarstjóra KSÍ, og birtum við nú svörin hennar.
Hvað finnst þér um ummæli dómarans um að Arnar Gunnlaugsson hafi svert ímynd knattspyrnunnar?
„Eflaust hefur fólk ýmsar skoðanir á þessu eins og öðru, þarna lýsir einstaklingur sinni skoðun og ég virði hana.“
Hvað finnst þér um ummæli dómarans um að dómarastéttin hafi viljað sjá Arnar dæmdan í leikbann?
„Það hafa allir rétt á sinni skoðun. Hvort hann tali fyrir alla dómarastéttina er erfitt að segja til um. Dómarastéttin hefur vettvang til að koma sínum málum á framfæri við KSÍ, í gegnum Félag deildadómara, sem KSÍ á í miklu og góðu samstarfi við.“
Hvað finnst þér um ummæli dómarans að það séu ekki nógu margir dómarar og að getumunur milli deilda sé of mikill?
„Það er sameiginlegt verkefni knattspyrnuhreyfingarinnar að fjölga dómurum og það er alveg rétt að dómarar almennt eru ekki nógu margir. KSÍ vinnur markvisst að því að fjölga dómurum og styður við starf aðildarfélaganna í sama verkefni með ýmsum hætti. Mörg félög standa sig virkilega vel í dómaramálum, en þetta er auðvitað misjafnt, eins og gengur. Kvendómurum hefur fjölgað síðustu ár og taka sífellt fleiri og stærri verkefni. Varðandi getumun milli deilda, þá er það auðvitað matsatriði, en ætli þetta sé nokkuð öðruvísi en með leikmennina, þegar menn fara upp um deild þá ná sumir að taka skrefið og fóta sig, en aðrir þurfa lengri tíma. Ef dómarinn er nógu góður, þá fær hann/hún verkefni við hæfi.“
Heimildir Mannlífs herma að reynslumiklir dómarar séu að íhuga að hætta dæma og spilar Arnars-málið, herferðin #takkdómarar og almennt virðingarleysi áhorfenda, leikmanna, þjálfara og starfsmanna KSÍ þar stórt hlutverk. Hvað segiru við því?
„Ég hef ekki heyrt af slíku.“
Hvernig hefur herferðin #takkdómarar gengið að ykkar mati og hvernig mæliði árangurinn?
„Þetta átak hefur vakið athygli og skapað umræður og það er jákvætt.“