Ár er liðið síðan Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, greindi frá í viðtali í Morgunkaffinu á Rás 2 að Dorrit Moussaieff, eiginkona hans, hefði látið taka sýni úr hundi sínum Sámi í þeim tilgangi að láta klóna hann síðar meir. Klón Sáms er nú komið í heiminn.
Það var í september á þessu ári sem Dorrit sagði frá því á Instagram að hún biði spennt eftir svörum frá líftæknifyrirtækinu ViaGen um hvernig uppsetning fósturvísa, sem innihéldu frumur hundsins Sáms, hefði tekist. Ferlið virðist hafa gengið eins og í sögu því klónið er komið í heiminn. Hvolpurinn fæddist 25. október.
Dorrit birti tvær myndir af hvolpinum, sem hún kallar Samson, á Instagram fyrr í kvöld. Í myndatexta segir hún Samson vera 750 grömm og heilbrigðan
Þess má geta að Sámur drapst í janúar, þá 11 ára gamall. Ólafur gaf Dorrit Sám um sumarið 2008. Hann var blanda af íslenskum og þýskum hundi.
Sjá einnig: Nokkrar staðreyndir um hund Dorritar