- Auglýsing -
Kolbrún Ósk Skaftadóttir átti varla til orð á dögunum þegar hún fór að skoða lesefnið sem syni hennar var boðið upp á í grunnskólanum. Að hennar mati voru allar bækurnar á leslistanum orðnar alltof gamlar og úreltar því að:
„- Engin þessara bóka inniheldur hinsegin foreldri.
– Engin þessara bóka inniheldur manneskju af öðrum húðlit en ferskjubleikum.
– Engin þessara bóka inniheldur hinsegin eða kynsegin persónu.
– Engin þessara bóka inniheldur stelpu sem aðalpersónu.
– Engin þessara bóka inniheldur einstætt foreldri.
– Engin þessara bóka inniheldur fatlaðan einstakling.
– Engin þessara bóka inniheldur í raun neitt annað en gamlar, úreltar og í versta falli skaðlegar staðalímyndir um lífið.
Fjölbreytileikinn er enginn. Ekki neinn sér fjölbreytninni í lesefni barna sinna eftir að hafa skrifað tölvupóst til skólastjóra um málið,“ segir Kolbrún.
Kolbrún ákvað að fjalla bæði um málið í færslu á Facebook og senda skólastjóranum bréf vegna lesefni sonarins.
Hér fyrir neðan má finna brot úr bréfinu:
„Í kvöld varð mér aðeins nánar litið á það lesefni sem Róbert hafði komið með heim úr skólanum. Hann er með eftirfarandi þrjár bækur: Doddi fer í siglingu – gefin út árið 1985 (37 ára gömul bók) Skrýtinn dagur hjá Gunnari – gefin út árið 2003 (19 ára gömul bók) Margt skrýtið hjá Gunnari – gefin út árið 2005 (17 ára gömul bók).
– Engin þessara bóka inniheldur hinsegin foreldri.
– Engin þessara bóka inniheldur manneskju af öðrum húðlit en ferskjubleikum.
– Engin þessara bóka inniheldur hinsegin eða kynsegin persónu.
– Engin þessara bóka inniheldur stelpu sem aðalpersónu.
– Engin þessara bóka inniheldur einstætt foreldri.
– Engin þessara bóka inniheldur fatlaðan einstakling.
– Engin þessara bóka inniheldur í raun neitt annað en gamlar, úreltar og í versta falli skaðlegar staðalímyndir um lífið.
Fjölbreytileikinn er enginn. Ekki neinn.
Fram til þessa hef ég satt að segja oft velt því einlægt fyrir mér af hverju bækurnar sem Róbert fær með sér heim úr skólanum vekja ekki hjá honum áhuga.
Af hverju hann má helst ekki lesa myndasögur, þegar hann hefur rosalegan áhuga á þeim og þar er oftar en ekki mjög flottur texti til lestrar. Sem bóksali til tæplega 30 ára, hef ég líka oft velt því fyrir mér hvers vegna bókakostur skólasafnsins hefur ekki verið endurnýjaður oftar en raun ber vitni.
Í kvöld sá ég þetta svo allt saman í nýju ljósi.
Í kvöld, meðan ég fylgdist með mínum litla lestrarhesti þræla sér í gegnum bók sem hann var eingöngu að lesa af skyldu, en engri ánægju…bók frá Menntamálastofnun sem var gefin út árið 2003 (það eru 19 ár síðan!), þá fór ég að tengja hluti saman, sem ég hefði auðvitað átt að gera miklu miklu fyrr.
Hatursorðræða, fordómar, einelti og allt sem um var rætt í fyrirlestrinum um daginn – Hverjir/hvað eru stærstu áhrifavaldar þess? Hvaða fordæmi setjum við? Hverju erum við að halda að börnunum okkar? Á hvað leyfum við þeim að horfa? Hvað erum við að láta þau lesa?
Ég leitaði einlægt eftir einhverju í þessum þremur bókum sem sýndi ungum lesendum að það er til allskonar annað en hefðbundnu staðalímyndirnar. Ég fann ekkert. Ekki neitt!
Ef við ekki sýnum í gegnum lesefni barna að mannlífið er fjölbreytt, fólk er allskonar og lífið er sannarlega margvíslegt, hvernig getum við þá ætlast til þess að þau skilji að ekki á að stríða einhverjum fyrir að eiga hinsegin foreldra?
Eins og fram kom hér ofar, er ég bóksali og hef starfað við það í tæp 30 ár. Það voru því hæg heimatökin þegar ég ákvað að kynna mér þetta aðeins betur. Það gat bara ekki verið að skólanum byðist ekki annað lesefni.
Ég setti mig því í samband við bæði höfunda og bókaútgáfur og viti menn…það er einmitt alls ekki þannig að annað og fjölbreyttara lesefni sé ekki í boði! Mér er hins vegar tjáð að skólinn forgangsraði sínu fjármagni ekki á þann hátt að rými sé fyrir nokkra endurnýjun lesefnis. Vonbrigði mín eru gríðarleg ef þetta er í alvöru raunin.
Kæri skólastjóri, viltu hjálpa mér að skilja þetta?
Ég skoðaði efni Menntamálastofnunar í dag og sé að þar er fullt af frábærum bókum eftir flotta höfunda sem hafa einmitt þessa hluti í huga. Er það virkilega raunin að bókakostur skólans sé svo aftarlega á forgangslista skólastjórnar að sex ára börn hafi nánast ekkert val um lesefni úr samtíma sínum? Ef svo er, þá er kannski ekkert skrítið að þegar bekkjarfélagar Róberts komu í afmæli til hans í vikunni, spurðu þau Áslaugu hver hún eiginlega væri. Þegar svarið var auðvitað „Ég er mamma Róberts“ urðu þau mörg hver bara steinhissa! Sögðu að ég væri sko mamma hans og skildu ekkert í því að við gætum báðar verið mömmur hans. Einhver börn spurðu svo hvort pabbi hans væri dáinn!
Vissulega eru ekki öll þessi börn orðin læs en þó ætla ég að leyfa mér að fullyrða að fjölbreyttara og nútímalegra lesefni í grunnskólum hefði hiklaust haft þau áhrif að okkar fjölskylduform ætti ekki að koma neinu þessara barna á óvart, eins og það gerði þarna.
Mörg þessara barna eiga til dæmis eldri systkini í sama skóla og umræða á heimilum, sem spinnst upp úr lesefni barna, fræðir ekki bara börnin sjálf, heldur heilu fjölskyldurnar og samfélagið allt.
Ábyrgð og áhrif grunnskólanna eru því gríðarlega mikil og ef taka á því alvarlega að uppræta fordóma og fáfræði, þá verður seint klórað yfir metnaðarleysi í úrvali lesefnis með stöku foreldrafyrirlestri um fordóma.“