Kom til átaka milli húsráðanda og innbrotþjófs í Hlíðunum í nótt. Þjófurinn fór inn í íbúð þar sem hann ætlaði að láta greipar sópa. Húsráðandi kom hinsvegar að manninum og náði á honum taki. Þjófurinn dró þá upp hníf sem varð til þess að maðurinn hlaut skurð a hendi og var hann fluttur til aðhlynningar á bráðadeild í kjölfarið. Þjófurinn var handtekinn og látinn gista í fangaklefa. Fyrr um kvöldið barst lögreglu tilkynning vegna þjófnaðar í verslun í Breiðholti. Þar hafði maður stolið spritti og ræddu lögreglumenn við manninn. Var hann ofurölvi og versnaði ástand hans meðan lögregla var á staðnum. Var því ákveðið að færa manninn í fangaklefa sökum ástands. Skömmu síðar var lögregla kölluð út í Breiðholtið á nýjan leik. Þar hafði ökumaður orðið fyrir líkamsárás eftir að hafa boðið farþegum far í hverfi 108. Farþegarnir, tveir menn, vildu að þeim yrði ekið í Hafnarfjörð en ökumaðurinn var að fara í Breiðholtið. Höfðu mennirnir tveir í fyrstu viljað fara þangað. Ökumaðurinn var kýldur ítrekað í andlit og lyklar af bílnum teknir af honum. Mennirnir tveir voru handteknir skömmu síðar og látnir gista bak við lás og slá. Þá sinnti lögregla umferðareftirliti og stöðvaði nokkra ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum vímuefna.