„Löggan hringdi í mig hingað til London í gær, ekki Scotland Yard heldur lögreglan á íslenska höfuðborgarsvæðinu. Líklegast hefur upphringjandinn haldið að ég færi í hnút yfir símtalinu svo hann tók skýrt fram í upphafi, eftir að hafa kynnt sig, að hann væri nú ekki að hringja í mig útaf neinu alvarlegu.“ Svona byrjar Facebook-færsla Kristins Hrafnssonar en hann lenti í því að kona í Ísrael sigaði íslensku lögreglunni á hann.
Ritstjóri Wikileaks segir frá því á Facebook í morgun að hann hafi fengið ansi sérstakt símtal frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Erindið voru samskipti Kristins við konu á Facebook, í kjölfar skrifa hans um það gengdarlausa ofbeldi sem Palestínumenn mega þola um þessar mundir, af hendi ísraelska hersins. „Forsagan er sú að yfir helgina fékk ég yfir mig frekar dónaleg skilaboð á facebook frá einstaklingum sem samhliða höfðu sent mér vinabeiðni – svo undarlegt sem það nú er. Þetta voru allt skilaboð sem snéru að því að ég færi villu vegar í færslum mínum um málefni Gaza og helst að það færi fyrir brjóstið á viðkomandi að ég fordæmdi barnaslátrunina í linnulausum loftrárásum Ísraelshers. Málfarið var allt keimlíkt.“
Kristinn segist hafa grennslast fyrir um prófíla viðkomandi, hafi þeir reynst bera þess merki að vera gerfimenn en við þá vill Kristinn ekki tala. „Tel það hámark hugleysisins að fela sig á bak við gerfinöfn, sérstaklega ef tilefnið er aðallega að ráðast á mína persónu (sem ég er annars ekkert sérstaklega viðkvæmur fyrir). Ég eyddi einhverjum af þessum ummælum og blokkaði gerfimennina.“
En það dugði ekki til. „Loks dúkkar upp kona sem virtist vilja halda áfram sama þrástagli en nú undir nafni sem virtist alvöru. Engu að síður vildi ég ganga úr skugga um að viðkomandi væri ekta og fletti því viðkomandi upp í íslendingabók, símaskrá og þjóðskrá. Eftir stutta skoðun kom aðeins ein kona til greina og var viðkomandi skráð með heimilisfestu erlendis, nánar tiltekið í Ísrael.“
Ritstjórinn tók í kjölfarið skjáskot úr þjóðskránni og póstaði á Facebook auk þess sem hann lét spurningu fylgja, þar sem hann spurði hvort konan væri á launum við að skrifa athugasemdir um hans „vonda innræti og meinta skoðanavillu.“ Bætti hann við: „Sú birting olli slíku hugarvíli hjá Íslensku konunni í Ísrael að hún hringdi langlínusímtal til lögreglunnar á íslenska höfuðborgarsvæðinu með kvörtun eða kæru. Og lögreglan hringdi beint í mig.“
Að lokum segist Kristinn ætla að gera eftirfarandi, næst þegar einhver vill héreftir eiga við hann orðastað á opinberum vettvangi: „a) næst þegar einhver sakar mig um gyðingahatur fyrir það eitt að gagnrýna helstefnu stjórnvalda gagnvart Palestínumönnum mun ég tilkynna það formlega til lögreglu sem gyðingahatur. Ég tel að ásökun um samjöfnuð af slíku tagi sé alvarleg aðför gegn öllum gyðingum heimsins, þeir allir sagðir samsekir í voðaverkum sem nú eru framin á Gaza og teljist það því hatursorðræða. b) næst þegar einhver sakar mig um gyðingahatur og/eða stuðning við Hamas mun ég líta á það sem ærumeiðandi aðdróttandi ummæli og íhuga að leita réttar míns með það að leiðarsljósi.“