Fjölmargir, þar á meðal börn, urðu vitni að því þegar maður réðist á fyrrverandi konu sína með öxi fyrir fram Dalskóla í Grafarhotli síðdegis í gær. Konan var flutt illa slösuð á spítala en er ekki talin í lífshættu.
Vísir greindi frá en lögregla hefur farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að maðurinn beitti öxi við árásina.
Skólastjórnendur Dalskóla hafa sent foreldrum og forráðamönnum nemenda við skólann bréf vegna málsins.
„Kæru foreldrar og forráðamenn.
Nú er ljóst að atvik sem átti sér stað framan við Dalskóla seinni partinn i gær, beindist ekki gegn nemendum, starfsfólki eda skólanum sjálfum.
Lögregla telur að um einangrað tilvik sé að ræða og er ekki talin hætta á ferðum. Vegna sögusagna viljum við árétta að ekki var um skotárás að ræða.
Starfsfólk Úlfabyggðar brást hárrétt við í flóknum aðstæðum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Við munum, eins og ávallt, gera allt til að tryggja öryggi nemenda okkar.
Atvikið snertir tvö börn í skólanum og viljum við biðja foreldra að sýna nærgætni í umræðu um málið.“