Bandaríska konan sem slasaðist alvarlega þegar ísveggur hrundi við Breiðurmerkujökul á sunnudaginn er ófrísk. Eiginmaður hennar lést í slysinu.
Samkvæmt heimildum Vísis er konan á batavegi og barninu varð ekki meint af. Konan var í íshellaskoðunarferð á vegum Ice Pic Journeys ásamt eiginmanni sínum, sem lést í slysinu. Í hópnum voru alls 23 ferðamenn sem skipt hafði verið í tvo hluta. Samkvæmt heimildum Vísis voru tveir óreyndir leiðsögumenn með hvorn hópinn.
Eftir slysið var leitað að tveimur ferðamönnum sem talið var að hefðu orðið undir ísnum, allt þar til í ljós kom að fyrirtækið hefði gefið upp rangar upplýsingar um fjölda ferðamanna í ferðinni en leitinn var hætt um miðjan dag á mánudaginn.
Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssononar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi, stendur ekki til að loka veginum að Breiðamerkurjökli.
„Þá værum við að fara að loka öllum jöklum landsins,“ segir Sveinn Kristján í samtali við Vísi.