Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks er þekktur fyrir að hafa munninn fyrir neðan nefið en hann hefur í gegnum tíðina verið duglegur að gagnrýna samfélagið og sér í lagi stjórnmálin hér á landi. Í nýjustu færslu sinni á Facebook líkir hann Sjálfstæðisflokknum við Gauk.
Í færslunni birtir Kristinn ljósmynd af Gauki og segir að hann sé nýji einkennisfugl Sjálfstæðisflokksins.
„Þetta er gaukur, hinn nýji einkennisfugl Sjálfstæðisflokksins. Gaukurinn hefur ekki fyrir því að gera sér hreiður heldur verpir í hreiður annara fugla og þegar ungarnir koma úr eggjum sparka þeir öðrum ungum fósturforeldra sinna úr sníkjuhreiðrinu. Sumir fuglar hafa vit á því að velta aðskotaegginu úr hreiðri sínu en aðrir gá ekki að sér enda gaukurinn nokkuð leikinn í því að dulbúa egg sín.“
En hvað kemur þetta Sjálfstæðisflokknum við? Jú, Kristinn tengir þetta við nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar þar sem Einar Þorsteinsson, sem á sínum yngri árum var formaður Týs, félags Sjálfstæðismanna í Kópavogi, bauð sig fram sem oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík með góðum árangri.