Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Kristinn lastar ríkjandi hugarfar: „Þetta er stúdía í ómennskunni, firringunni og sinnuleysinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristinn Hrafnsson segir lágkúru illskunnar sem vart var í helförinni, sé aftur komin á kreik, á meðan þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum á sér stað fyrir framan augum heimsins.

Kvikmyndin Zone of Interest eftir Jonathan Glazer hefur farið sigurför um heiminn að undanförnu og er meðal annars tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna. Kvikmyndin, sem sýnd er í Bíó Paradís, fjallar um Rudolph Höss, stjórnanda Auschwitz útrýmingabúða nasista í seinni heimsstyrjöldinni og fjölskyldu hans sem bjó upp við búðirnar. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks sá hana og skrifaði um hana á Facebook í dag. Segir hann myndina ekki vera um helförina sjálfa, heldur þann hugsanagang sem verði að vera til staðar svo hægt sé að fremja slíkan hrylling.

„Þetta er í raun ekki mynd um helförna heldur það hugarástand sem verður ríkjandi hjá þeim sem framkvæma hana og þeim sem láta sig hana engu varða. Þetta er stúdía í ómennskunni, firringunni og sinnuleysinu og samsekt þeirra sem létu lágkúru illskunnar (banality of evil, samanber Hönnu Arendt) hvolfast yfir sig. Þetta er að því leyti merk stúdía, ekki á helförinni beint, heldur á því hugarfari sem varð að vera til staðar svo að helförin gæti orðið að veruleika.“

Segir Kristinn að myndin tali að hluta til beint inn í samtímann.

„Þetta er ekki djúp greining heldur mynd af veruleika þar sem fólk tekur beinan og óbeinan þátt í þjóðarmorði eins og það sé hinn eðlilegasti hlutur. Að því leyti talar þessi mynd beint inn í samtímann. Rudolph Höss, fjölskylda hans og vinir, eru í kringum okkur í dag. Nú er búið að myrða 30,412 manns með kerfisbundnum hætti fyrir framan nefið á okkur. Meira en 2 milljónir manna búa við hungur og ómennskan aðbúnað þar sem dauðinn er byrjaður að fella fólk. Börnin sem náðu að sleppa lifandi og ómeidd undan sprengjuregni og kúlnahríð eru nú sótt af dauðanum vegna sultar og sjúkdóma.“

Kristinn kemur einnig inn á söngvakeppnir og fótboltalandsleiki þar sem Ísraelar taka þátt og ber saman við kvikmyndina.

- Auglýsing -
„The Zone of interest er því áminning um að við erum að sjá gerast aftur sem aldrei átti að gerast aftur, vegna þess að lágkúra illskunnar gerir það verkum að við spyrnum ekki við fótum. Sá veruleiki er okkar daga og snertir okkur beint. Sérstaklega núna þegar yfirhöfuð þarf að ræða það hvort rétt sé að taka þátt í söngvakeppnum og fótboltalandsleikjum þar sem fólk merkt ábyrgðaraðila þjóðarmorðsins er meðal boðsgesta.

Þessir íþrótta- og menningarviðburðir verða núna haldnir í fögrum lystigarði Höss fjölskyldunnar. Það er ekki hægt að útiloka óhugnaðinn þó að hann sjáist ekki úr garðinum. Þrátt fyrir glimmerskýin og tuðrusparkið á iðagrænum fögrum völlum, mun reykurinn úr skorsteinunum og skelfingarópin í börnunum vera í bakgrunni. Hver og einn einasti sem þiggur boðið, sem þátttakandi eða áhorfandi, mun aldrei geta umflúið eigin ábyrgð á því sem er að gerast handan við vegginn.“

Lokaorð Kristins eru sterk.

„Boðskortið í Höss garðinn er merkt þér persónulega. Þú ræður hvað þú gerir við það en sú ákvörðun mun skilgreina þig og fylgja þér alla tíð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -