„Guðni forseti ávarpaði þingmenn Evrópuráðsins í liðinni viku í Strassborg en eins og kunnugt er verður leiðtogafundur ráðsins í Reykjavík 16.-17. maí n.k. Forsetinn svaraði líka spurningum og spurði þýski þingmaðurinn Andrej Hunko forsetann hvað leiðtogafundurinn myndi gera í málefnum Julian Assange sem hefur núna verið í rúm fjögur ár í fangelsi í Bretlandi að berjast gegn framsali til Bandaríkjanna þar sem hans bíður lífstíðarfangelsi fyrir að sinna blaðamennsku.“ Svona byrjar færsla Kristins Hrafnssonar ritstjóra Wikileaks á Facebook. Þar veltir hann fyrir sér hvort leiðtogarnir sem mæta á leiðtogafundinn í næstu viku, muni beita sér í máli Julian Assange, sem nú bíður í bresku fangelsi eftir framsali til Bandaríkjanna fyrir að birta leynilegar upplýsingar og myndskeið frá bandaríska hernum.
„Forseti Íslands minnti á það í svari sínu að Ísland væri öflugur málsvari frjálsrar fjölmiðlunnar og frelsi blaðamanna og myndi vera það áfram. Varðandi einstakar aðgerðir vísaði hann á íslenska utanríkisráðherrann sem var í salnum. Guðni minntist á fund sem við áttum á liðnu hausti sem var vonandi upplýsandi fyrir forsetann,“ hélt Kristinn áfram.
Því næst spurði Kristinn: „Eftir stendur spurningin, hvað ætla pólitískir leiðtogar Evrópu að segja á fundinum eftir rúman hálfan mánuð um málefni Julians?“
Ritstjórinn hvíthærði sagði einnig í færslunni að ofsóknirnar gegn Assange snúist um mun stærri hagsmuni en eins manns.