Það gustaði um Kristján Jóhannsson óperusöngvara eftir að hann sagði Eyrúnu Magnúsdóttur, þáverandi þáttastjórnanda Kastljóssins, vera rauða á brjóstunum af æsingi. Fyrr um daginn hafði hann jafnframt slegið sjónvarpsmanninn Gulla Helga á Stöð 2 er söngvarinn mætti í viðtal í Bítinu. „Þetta var helvíti fast,“ sagði Gulli í viðtölum eftir þáttinn með Kristjáni.
Í bæði viðtölin mætti Kristján haldandi að hann væri að fara að fá tækifæri til að kynna nýútkomna hljómplötu sína. Sú varð aldeilis ekki raunin því Gulli og Eyrún höfði meiri áhuga á að krefja hann svara fyrir að þiggja laun fyrir að koma fram á styrktartónleikum fyrir langveik börn.
„Kristján laug“
Þegar Kristján mætti til Gulla Helga fékk hann að sjá forsíðu DV í fyrsta skipti í beinni útsendingu þar sem fyrirsögnin var „Kristján laug“. Í blaðinu var óperusöngvaranum gefið að sök að þiggja himinhá laun fyrir að koma fram á styrktartónleikum í Grafarvogskirkju, þar sem markmiðið var að safna fé til stuðnings barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Fyrir utan Kristján komu þau fram á þeim tónleikum þau Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir, betur þekkt sem Diddú. Og í DV sagði Sigmar Steingrímsson, formaður Lionsklúbbsins Fjörgynar í Grafarvogi, klúbbnum sem hélt styrktartónleikana: „Það fékk enginn þeirra tónlistarmanna sem kom fram á tónleikunum í Grafarvogskirkju greitt.“ Það er, fyrir utan Kristján Jóhannsson óperusöngvara og allt ætlaði um koll að keyra í samfélaginu.
Sannur Ítali
Framkoma Kristjáns óperusöngvara í íslandi í bítið og Kastljósi varð fljótlega á hvers manns vörum. Eins og áður sagði sló Kristján sjónvarpsmanninn Gulla Helga og sagði brjóstin á Eyrúnu vera rauð af æsingi.
„Þú heilsar mér þegar ég kem inn og skellir þessu svo framan í mig,“ sagði Kristján við Gunnlaug Helgason þegar hann spurði hann út í forsíðufrétt DV á miðvikudaginn. Kristján varð mjög reiður og missti nánast stjórn á sér þegar hann sá forsíðuna. Gunnlaugur segir þau alls ekki hafa ætlað að koma svona aftan að Kristjáni. Gáfu honum tækifæri „Við hentum til hans björgunarhring sem hann ekki tók,“ segir Gunnlaugur sem ætlaði að gefa Kristjáni kost á að svara fyrir frétt DV með skynsamlegum rökum, bjóst við að hann hefði séð blaðið sem hann hafði ekki gert.
„Ég hálf vorkenndi honum. Hann kom þessu mjög illa frá sér. Hann er orðinn eins og sannur ítali, fljótur upp og fljótur niður aftur,“ sagði Gulli Helga sem sjaldan sagðist hafa lent í öðru eins.
Inga Lind Karlsdóttir stýrði Bítinu með Gulla á þessum tíma. Hún hafði þetta að segja um löðrung óperusöngvarans. „Ég er alveg búin að ná mér enda sagði hann lítið annað við mig en hvað ég væri sæt og fín. Þetta var svolítið groddalegt klapp sem hann gaf Gunnlaugi á vangann en svona er hann víst vanur að heilsa fólki,“ sagði Inga Lind.
Eyrún með rauðu brjóstin
Árið 2004 vildu hvorki Eyrún né Sigmar Guðmundsson, stjórnendur Kastljóss, tjá sig um hegðun Kristjáns söngvara í Kastljósinu. Heimildamenn DV á sínum tíma sögðu þau hins vegar bæði hafa verið í sjokki eftir þáttinn en þar greip Kristján fram í fyrir Eyrúnu, sem þá var að fara yfir kostnaðarliði styrktartónleikanna, og sagði Eyrúnu í Kastljósinu vera með rauð brjóstin af æsingi. „Brjóstin á henni eru orðin rauð, svo upptrekkt er konan,“ sagði Kristján við Eyrúnu.
Í Kastljósþættinum hélt Kristján allan tímann á nýútkominni plötu sinni sem hann harmaði að kæmi út við þessar aðstæður. „Þetta er ekki mjög æskilegt andrúmsloft sem hún kemur í þessi elska. Kaupið bara plötuna mína og látið ykkur líða vel,“ sagði Kristján að lokum.
Allt tekið úr samhengi
Og það er svo í nýútkomnum podcast-þætti Sölva Tryggvasonar sem Kristján óperusöngvari tjáir sig loks um hin umdeildu viðtöl sem hann fór í og þá staðreynd að hann þáði laun fyrir að koma fram á tónleikunum.
Til að skýra mál sitt skulum við gefa Kristjáni einfaldlega orðið:
„Þetta var ótrúleg atburðarás og það var allt tekið úr samhengi og í raun bara beinlínis logið upp á mig í fjölmiðlum. Ég hef alla tíð verið mjög ötull í að láta gott af mér leiða, ekki síst eftir að ég missti þáverandi konuna mína úr krabbameini fyrir þrítugt. Þess vegna var þetta sérstaklega sárt. Það var mikill fjöldi fólks á sviðinu á þessum tónleikum og það fengu allir borgað fyrir vinnuna sína. Og sumir hafa líklega aldrei verið á hærri launum en þarna. Ljósamenn, hljóðfæraleikarar, hljóðmenn, söngvarar, allir voru á launum. Kaupþing Banki styrkti tónleikana og keypti afraksturinn og setti á plötu. Launin mín komu þess vegna frá Kaupþingi og höfðu ekkert með innkomu tónleikanna að gera. Bankinn keypti tónleikana og borgaði því vinnu allra. En þetta var sett upp eins og að ég hafi einn fengið borgað og tekið launin mín beint frá málefninu sjálfu. DV byrjaði málið og svo tók RÚV það upp og birti sömu lygina og hafði verið í DV. En það spurði mig aldrei neinn út í þetta áður en þetta var birt,“ segir Kristján og bætir við:
„Ég fékk meira að segja borgað í Evrum frá bankanum, þannig að það að halda því fram að þetta kæmi af ágóða tónleikanna var algjörlega galið. Svo var ég plataður í Kastljósið. Ég mætti þangað til að kynna plötu og vissi ekki að ég væri að fara að tala um þetta mál. En á sama tíma og ég er að undirbúa mig undir að fara í Kastljósið er verið að lesa fréttina um mig hinum megin í húsinu á RÚV. Ég var með plötu í hendinni og hélt að ég væri að fara að tala um tónlistina mína í Kastljósinu. Svo var bara komið í bakið á mér með alls konar spurningar í beinni útsendingu án þess að ég hefði hugmynd um að það væri í vændum. En ég náði nú að hrista þetta frekar fljótt af mér. Shakespeare sagði einhvern tíma: „Fólk er fífl“ og ég hafði það í huga í gegnum þetta ferli. En það er ekkert sem þú getur gert þegar fjölmiðlarnir fara af stað með þessum hætti og hringekjan fer af stað. Þetta var í raun og veru bara eins og árás og það er erfitt að skilja hvernig argasta bull getur náð svona miklu flugi. Það er ekki fyrr en löngu síðar þegar rykið er sest sem hægt er að tala um þetta af einhverju viti.“