„Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er afdráttarlaus og skýr um það að ráðherra braut gegn atvinnu- og eignarréttindum Hvals og skeytti raunar engu um slík sjónarmið. Þetta er kunnuglegt stef í stjórnsýslu ráðherrans,“ sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., í samtali við mbl.is, en tilefni þess var álit Umboðsmanns Alþingis sem birtist í gær. Í því komst umboðsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi ekki gætt að meðalhófi eða hafa nægilega skýra lagastoð þegar hún setti á tímabundið hvalveiðibann í fyrra.
„Hún lætur eigin pólitísk sjónarmið ráða för hvað sem líður öðrum hagsmunum, ef þeir eru henni ekki að skapi. Að sjálfsögðu mun Hvalur sækja bætur vegna þess stórfellda tjóns sem félagið og starfsmenn þess hafa orðið fyrir,“ sagði Kristján að lokum.
Svandís hefur gefið það út að hún muni ekki segja af sér og segir skýrt að hún hafi ekki brotið lög. „Þetta er ekki lögbrot. Það er algjörlega á hreinu. Það skiptir máli að nota rétt orðalag í þessum málum,“ sagði Svandís í Speglinum á RÚV.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, og Inga Sæland, formaður Flokks Fólksins, hafa kallað eftir því að Svandís segi af sér ráðherraembætti.