Kristrún Frostadóttir lauk ferð sinni um landið í gær en í ferðinni hefur hún sótt 36 opna fundi um heilbrigðismál. Síðasti fundurinn fór fram í Vestmannaeyjum.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur farið með himinskautum undanfarið og þakka það margir formanninum, Kristrúnu Frostadóttur. Í nýrri færslu á Facebook segir hún frá síðasta fundi sínum um heilbrigðismál en hún hefur undanfarið ferðast um landið til að ræða málin við þjóðina. Í færslunni segist hún afar þakklát öllum sem hafa tekið þátt á fundunum og hlakka til að kynna útspil Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum á komandi hausti.
„Góðar samræður um heilbrigðismál í Vestmannaeyjum í gær
Heimsóttum fyrst sjúkrahúsið og hjúkrunarheimilið. Og svo átti ég góðan fund með Írisi bæjarstjóra.
Höfum núna haldið 36 opna fundi um heilbrigðismál um land allt. Þetta var sá síðasti í bili. Samhliða höfum við átt vinnufundi með fólki á gólfinu og öðrum sérfræðingum.
Ég er virkilega þakklát öllum sem hafa tekið þátt og deilt með okkur upplýsingum og sjónarmiðum. Núna ætlum við í forystu Samfylkingarinnar og stýrihópi flokksins um heilbrigðisþjónustu og öldrunarmál að leggjast yfir efnið sem við höfum viðað að okkur — höldum líka áfram vinnufundum í sumar og köllum til sérfræðinga.
Næsta haust verður svo útspil okkar í heilbrigðismálum kynnt. Hlakka til!“