Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ræddi við fjölmiðla eftir að hafa fundað með Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, formanni Viðreisnar, í allan dag til þess að ná saman í von um að geta myndað nýjan ríkisstjórn.
Samkvæmt Kristrúnu voru ýmiss konar ágreiningsmál rædd og nefnir til dæmis ESB í því samhengi. „Við erum búin að ræða á síðustu dögum breiðu línurnar en erum núna komin og höfum verið að ræða álitamálin og höfum komist vel áfram í því,“ sagði Kristrún við RÚV. „Við erum auðvitað bara meðvituð um það að við erum að koma inn í þessar stjórnarmyndunarviðræður í ákveðnu efnahagsástandi. Við tökum stöðu ríkisfjármála mjög alvarlega og viljum að það sé ákveðin ábyrgð í því sem við leggjum fram. Það er verið að ræða ákveðnar málamiðlanir þar innan.“
Hvalveiðar ekki ræddar
Kristrún sagði að hvalveiðileyfi sem Bjarni Benediktsson, starfandi matvælaráðherra, veitti í gær hefðu ekki komið til umræðu. Hún tók fram að hún hefði ekki gert það sama í stöðunni og Bjarni. Þá hefur ekkert verið rætt hvort banna eigi hvalveiðar.
Kristrún nefndi sömuleiðis að þær hafi haldið áfram að ræða um fækkun ráðuneyta. „Við erum auðvitað ekki að fara í fækkun ráðuneyta bara til að spara peninga, við viljum líka að það sé eðlilegt skipulag á hlutunum.“
„Við erum allavega komnar vel af stað. Það segir ýmislegt að við erum farnar að ræða álitamálin og að fá lendingu í ákveðin mál þar. Það er ýmislegt sem á enn eftir að ræða en þetta gengur vel,“ sagði Kristrún þegar hún var spurð hvort hún væri bjartsýn á framhaldið.