Oddviti Pírata í Reykjavíkurborg, Dóra Björt Guðjónsdóttir, segir að meirihlutaviðræður gangi vel á milli þeirra fimm stjórmálaflokka sem rætt hafa saman undanfarið en þær hafa haldið áfram í dag.
Dóra segir að fundað hafi verið til 18 í dag en haldið verður áfram á morgun. Segist hún í samtali við RÚV vona að það dragi til tíðinda á allra næstu dögum varðandi embættisskipan.
Segir hún að oddvitarnir hafi í dag unnið að sáttmála og að þær séu komnar langt með kafla um húsnæðis- og skólamál.
„Þetta eru auðvitað bara lykiláhersluatriði, að stuðla að uppbyggingu húsnæðis og tryggja öllum öruggt þak yfir höfuðið. Og það er eitthvað sem að við, sem að ætti ekki að koma neinum á óvart að er stórt áhersluatriði í okkar vinnu,“ segir Dóra Björt við RÚV.
Að hennar sögn er flóknara að skrifa aðgerðaráætlun til aðeins eins ár en að gera stefnuyfirlýsingu til fjögurra ára.
„Þess vegna þurfum við í rauninni að fara svolítið dýpra í málin heldur en að kannski þyrfti að gera ef við hefðum lengri tíma fyrir höndum til að útfæra mál. Þannig að, við erum að flýta okkur en vanda okkur. Auðvitað vona ég að það fari að draga til tíðinda innan einhverra daga.“