Geðheilsa hins grunaða í tvöfalda morðmálinu í Neskaupstað hafði sýnilega versnað síðustu vikur að sögn manneskju sem þekkir hann.
Nútíminn sagði frá því að maðurinn sem grunaður er um morð á hjónum á áttræðisaldri í Neskaupstað um síðustu helgi, hafi lengi glímt við andleg veikindi og fíkniefnavanda en að hann hafi fengið „gæðastimpil“ frá geðdeild Landspítalans stuttu fyrir morðin og að fjölskylda hans hefði ítrekað reynt að svipta hann sjálfræði án árangurs.
Í febrúar á þessu ári kveikti hann í húsi sínu í Neskaupstað en mikið tjón hlaust af þeim bruna.
Mannlíf ræddi við einstakling sem þekkir hinn grunaða en hann vill ekki koma fram undir nafni, enda málið viðkvæmt.
„Hann er mjög fínn og skemmtilegur,“ segir einstaklingurinn í samtali við Mannlíf en tók fram að undanfarið hafi það ekki farið framhjá neinum að andleg heilsa hans hefði versnað. „Það var alveg greinilegt að hann var orðinn veikari, maður sá það langar leiðir.“ Þá segir einstaklingurinn að málið sé hið sorglegasta.
Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, var á föstudaginn úrskurðaður í viku gæsluvarðhald.