Kvikmyndin The Midnight Sky sem George Clooney leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í fékk hæstu endurgreiðslu úr ríkissjóði það sem af er þessu ári, alls 313 milljónir króna. RÚV greinir frá.
Myndin, sem var að hluta til tekin upp við Höfn í Hornafirði á síðasta ári, byggir á skáldsögunni Good Morning, Midnight eftir Lily Brooks-Dalton og fjallar um vísindamann sem er staddur á heimskautasvæðinu og reynir að ná sambandi við geimfara í geimskipinu Aether eftir heimsendi. Miðað við 25 prósent endurgreiðslu nam framleiðslukostnaður myndarinnar hér á landi um 1,3 milljörðum.
Kvikmyndin The Tomorrow War, sem þeir Chris Pratt og J.K. Simmons eru stjörnurnar í, fékk rúmar 200 milljónir í endurgreiðslu og sjónvarpsþættirnir Foundation fengu 164 milljónir, en þeir eru gerðir fyrir streymisveitu Apple.