Fæstir kveikja á perunni þegar þeir heyra nafnið Lárus Björn Svavarsson en flestir þekkja hann sem Lalla Johns. Lalli er edrú í dag en hann var einn frægasti útigangsmaður landsins í áratugi.
Lalli var eitt þeirra barna sem vistað var á Breiðuvík og leiðir hann líkum að því að dvölin þar hafi orðið til þess að hann hafi leiðst út í áfengis- og fíknefnaneyslu með þeim afleiðingum sem landsmenn þekkja.
Saga Lalla er sannarlega ein Sagna Skuggabarna og í viðtalinu fer hann yfir lífshlaup sitt, tilkomu viðurnefnisins, neyslunnar og edrúmennskunnar.
Lalli lýsir dvölinni á Breiðuvík sem hálfgerðu fangelsi.
„Þegar maður fór í mat var einhvers konar gæslumaður sem sat yfir manni og sá til þess að maður kláraði matinn,“ segir Lalli þegar Reynir spyr hann út í harðræðið á Breiðuvík, þar sem hann dvaldi frá sirka 1963 til 65, þá unglingur. Seinna í viðtalinu segir hann að ef drengirnir kláruðu ekki matinn, fengu þeir sama mat daginn eftir. „Maður var eiginlega alltaf á varðbergi með sjálfan sig.“ Eitthvert skiptið reyndi Lalli að komast hjá því að borða matinn með því að troða honum í brjóstvasann sinn.
Aðspurður hvort hann hefði einhvern tíma verið læstur inni á Breiðuvík svarar Lalli: „Það gat komið fyrir ef þú taldir, eða taldir, þeir fundu það bara upp hjá sér. Sem sagt að refsa manni, frekar en að gera gott úr hlutunum.“
Reynir: „Þannig að Breiðarvíkurdvölin hefur ekki bjargað nokkrum manni?“
Lalli: „Nei, held hún hafi ekki bjargað nokkrum manni. Eftir að maður fór þaðan var maður miklu verri.“
Lalli nefnir svo eitt smáatriði varðandi Breiðarvík. „Það var sett rauðamöl í kringum húsið, þannig að ef þú fórst út þá var alveg fylgst með manni. Maður var alltaf undir smásjánni hjá þessu fólki.“
Reynir: „Já, bara eins og fangelsi.“
Lalli: „Já, eins og fangelsi, þannig séð.“
Segir Lalli að stanslaust hafi verið fylgst með drengjunum og að ekkert hafi verið að gera á Breiðuvík, engar tómstundir og engin samskipti við annað fólk. „Ég var alltaf að bíða eftir tímanum, að komast í burtu en svo bara leið hann svo hægt og rólega.“ Á öðrum stað segir Lalli: „Maður umgekkst ekkert fólk þarna. Strákarnir voru eiginlega bara á varðbergi gagnvart sjálfum sér og öðrum. Og svo pössuðu þeir sig á því að vera bara hljóðir. Um leið og dagurinn var búinn var bara þakkað fyrir sig og setið inn á herbergi eða labbað eitthvað um.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Lalla á hlaðvarpsveitu Mannlífs.