Fjölmargar tilkynningar hafa borist varðstjórum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um borgarísjaka á Vestfjarðarmiðum og á Húnaflóa í vikunni. Hafa verið sendar siglingaviðvaranir sjófarendum af þeim sökum.
Á vef Landhelgisgæslunnar segir að áhöfnin á sjómælingaskipinu Baldri hafi siglt framhjá sjö ísjökum á leið sinni frá Húnaflóa að Norðurfirði í gær. Eru jakarnir allt frá því að vera um þrír metrar á hæð og breidd, upp í einn sem er 33 metra hár og um 110 metrar á langur. Sá var í fyrradag staðsettur á 66°03,0´N 021°14,6´V en áhöfn Baldurs sagði að hann virtist reka til austurs.
Hvetur Landhelgisgæslan sjófarendur til að sýna aðgát vegna ísjakanna og tilkynna staðsetningu þeirra til stjórnstöðvar Gæslunnar.