‘Vegir eru víða lokaðir á Suðvesturlandi vegna veðurs. Mikið hvassviðri má finna og skafrenning og víða sitja bílar fastir sem þarf að fjarlægja.
Líkt og í gær er Reykjanesbrautin enn lokuð og hið sama má segja um Grindavíkurveg. Hellisheiði og Þrengsli eru opin en vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát þar sem sums staðar geti verið blint vegna skafrennings.
Lokað eða ófært er víða á Norðausturlandi á vegum. Lokað er á Öxnadalsheiði, Þverárfjalli og Víkurskarði. Sömu sögu er að segja um Fjarðarheiði og Fagradal.
Þá er búið að loka veginum við Kirkjubæjarklaustur og austur að Jökulsárlóni ásamt því að ófært er frá Vík að Kirkjubæjarklaustri.
Öllu flugi frá Keflavíkurflugvelli allt til klukkan rúmlega ellefu hefur verið aflýst. Ekki er útilokað að einhverjar seinkanir verði á ferðum Strætó á morgun vegna viðgerða á strætisvögnum sem biluðu um helgina.
Samantha og George Novella, par frá Bretlandi, hafa verið veðurteppt í Keflavík í gær og gistu í fjöldahjálparmiðstöðinni í Keflavík í nótt. Parið er ekkert sérstaklega bjartsýnt á að komast heim til sín á næstunni. „Þetta lítur alls ekki vel út akkúrat núna. Ég held að við komust aldrei heim,“ sagði George í samtali við Vísi.