Flestar leiðir á Reykjanesskaga eru lokaðar vegna óveðurs sem nú gengur yfir landið. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi víða um landið.
Reykjanesbraut hefur verið lokað frá Hafnarfirði alla leið að flugstöðinni og fjöldi fólks situr fast á Keflavíkurflugvelli. Öllu Ameríkuflugi var aflýst í nótt en annað flug er á áætlun, í það minnsta enn sem komið er þótt ófært sé milli höfuðborgarinnar og flugvallarins.
Fylgdarakstur er að hefjast frá Hafnarfirði til Keflavíkur og eins frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar en Reykjanesbraut er lokuð vegna veðurs. Löng bílaröð hefur myndast við álverið í Straumsvík.
Grindavíkurvegur er lokaður eins og flestar leiðir á Reykjanesskaga. Krýsuvíkurvegur er lokaður, Nesvegur eru ófær og lokað er um Mosfellsheiði. Þá hefur Hellisheiði verið lokað og eins vegurinn milli Selfoss og Hveragerðis eftir því sem fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Varað er við hálku í Þrengslunum en leiðin er opin.
Norðaustan hvassviðri gengur yfir landið sunnanvert. Að suðausturlandinu tók gildi appelsínugul viðvörun.