Sóttvarnarlæknir hefur gefið út tilkynningu á heimasíðu Embætti landlæknis vegna aukinna endursmita á Covid-19. Framkemur að í dag er helsti óvissuþátturinn hversu vel og lengi ónæmi varir gegn sýkingu og/eða bólusetningu. Því skeri næstu vikur og mánuður úr um hversu algeng endursmit af völdum nýrra afbrigða verði. Sú vitneskja muni vega þungt í ákvarðanatöku um endurbólusetningar í síðari hluta þessa árs.
Þá kemur fram í tilkynningunni að hættan á endursmiti sé háð tíma fyrra smits og endurspegli dvínandi vernd: „Einnig virðast ný afbrigði veirunnar eiga auðveldara með að komast undan ónæmi af völdum fyrri afbrigða. Endursmitum hefur fjölgað verulega síðustu tvo mánuði og hafa síðustu vikurnar verið um 20% af daglegum fjölda smita. Fjölgunin tengist aukningu á BA.5 afbrigði kórónaveirunnar en þetta afbrigði veldur nú um 80% allra smita hér á landi. Erlendar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að BA.5 afbrigðið sleppur meira en önnur afbrigði undan ónæmi af völdum fyrri smita.“