Fyrirvarinn á næsta gosi í Sundhnúkagígaröðinni verður mjög stuttur að mati náttúruvársérfræðings.
Að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Ísland hefur staðan á Sundhnúkagígaröðinni lítið breyst síðustu daga en áfram eru taldar líkur á eldgosi.
Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur segir mbl.is að þó að skjálftavirknin á svæðinu sé mjög takmörkuð, haldi landris og kvikusöfnun áfram undir Svartsengi.
Aðspurt hvort einhverjar breytingar hafi orðið í borholum HS Orku, sem gerðu viðvart um síðustu tvö eldgosin á svæðinu segir Elísabet ekki svo vera.
„Nei. Við fylgjumst grannt með þeim allan sólarhringinn og það er ekki að sjá neinar breytingar. Þá höfum við bætt við ljósleiðara til auka vöktun á jarðhræringum og í svona góðu veðri eins og er núna höfum við með ágæta yfirsýn yfir alla mæla,“ segir hún.
Að hennar sögn er ómögulegt að segja til um hvenær muni fara að gjósa á Sundhnúkagígaröðinni en Veðurstofan telur enn hættu á eldgosi vera til staðar en ríkislögreglustjóri lýsti yfir hættustigi á Reykjanesskaga 30. janúar.
„Það getur farið að gjósa á morgun eða eftir tvær vikur en við búumst við því að fyrirvarinn verði mjög stuttur,“ segir hún.
Þann 9. desember lauk sjöunda eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023.