Þrír skjálftar undir 2 að stærð hafa mælst við Grindavík frá miðnætti, í gær mældust þar 60 jarðskjálftar, flestir undir 2 að stærð. Þrátt fyrir þennan fjölda hefur dregið úr skjálftavirkni í grennd við Grindavík frá 21. janúar.
Yfir 1300 skjálftar hafa verið á svæðinu frá 21. janúar. Veðurstofan mun halda áfram að fylgjast með virkni á svæðinu.
Landris á svæðinu vestan við Þorbjörn heldur áfram, en frá 20. janúar hefur land risið um fimm sentimetra og má búast við áframhaldandi skjálftavirkni með landrisinu.
Sérfræðingar telja að líklegasta skýringin á þessari virkni sé kvikuinnskot á 3-9 kílómetra dýpi rétt vestan við Þorbjörn, og talið er líklegast að virkninni ljúki án eldsumbrota.
Vísindaráð Almannavarna heldur fund á morgun þar sem farið verður yfir stöðuna.