Landsbankinn býður lægstu vextina þegar kemur að óverðtryggðum lánum. Lántaki hjá Landsbankanum getur sparað 200 þúsund krónur á ári ef miðað er við vaxtakjör Arion banka.
Vert er að rýna vel í vaxtakjör bankanna ef taka á nýtt íbúðalán eða endurfjármagna. Gríðarlegur munur getur verið á afborgunum á milli bankanna. Mannlíf gerði lauslega útreikninga á mismuninum.
Ef skoðuð er samanburðartafla Aurbjargar á vöxtum íbúðalána viðskiptabankana sést að vextir lána og lántökugjald hjá Landsbankanum er lægra en hjá Íslandsbanka og Arion banka.
Landsbankinn býður 6,25 prósent vexti á óverðtryggðu íbúðaláni með breytilegum vöxtum á meðan vextir Íslandsbanka á sama láni ber 6,65 prósent vexti. Munar þar 0,4 prósentum.
Lántaki sem tæki 40 milljóna króna óverðtryggt lán hjá Íslandsbanka, á breytilegum vöxtum, þarf að borga 160.000 krónum meira í vexti á ársgrundvelli, eða 13.333 krónur á mánuði, heldur en hann ef hann tæki sambærilegt lán hjá Landsbankanum.
Landsbankinn er að sama skapi með lægstu vaxtaprósentuna, 7,25 prósent, á óverðtryggðum íbúðalánum með föstum vöxtum. Arion banki er aftur á móti með hæstu vextina eða 7,75 prósent á samskonar láni. Munar þar hálfu prósenti á milli Landsbankans og Arion.
Lántaki sem tæki 40 milljóna króna lán hjá Arion banka væri því að greiða 200.000 krónum meira í vexti á ársgrundvelli, eða 16.667 kr á mánuði, en ef hann tæki sambærilegt lán hjá Landsbankanum.