Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Landspítali hótar hjónunum kæru: „Háttsemi ykkar felur í sér ólögmætt og gróft inngrip í einkalíf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjónum, sem telja að heilbrigðisstarfsmenn hafi gerst sekir um ólögmætar uppflettingar í sjúkraskrám þeirra, hefur nú borist bréf frá lögfræðingi á Landspítala þar sem þeim er hótað kæru. Er það vegna þess að þau hafi persónulega sett sig í samband við þá heilbrigðisstarfsmenn sem þau vilja meina að hafi farið inn í sjúkraskrárnar. Lögfræðingurinn sakar hjónin um að hafa setið um heilbrigðisstarfsmenn. Hjónin segja einungis hafa sent viðkomandi aðilum bréf í leit að skýringum á málinu.

 

Buðu starfsmönnum að skýra ótal uppflettingar

Í bréfinu frá Landspítala, sem undirritað er af Ingibjörgu Lárusdóttur, lögfræðingi sem starfar við spítalann, kemur fram að forstjóri Landspítala hafi vísað máli hjónanna Gunnars og Hlédísar til hennar. Hjónin komu á dögunum fram í viðtali þar sem þau sögðu meðal annars að farið hefði verið inn í sjúkraskrár þeirra með ólögmætum hætti. Þau sögðu ótal heilbrigðisstarfsmenn sem aldrei hefðu annast þau vera með skráðar uppflettingar í skráningarsögunni. Hjónin hafa gögnin undir höndum og hefur Mannlíf skoðað uppflettingarskrána, þar sem koma fram ótal nöfn heilbrigðisstarfsmanna á hinum ýmsu deildum spítalans. Það sem vakti hvað mesta athygli við stutt fyrsta yfirlit var til dæmis starfsmaður á líknardeild, barnalæknir, fæðingarlæknir og sérfræðingur í öldrunarlækningum.

Hjónin höfðu sjálf samband við forstjóra Landspítala og sendu einnig bréf á þá einstaklinga sem vöktu hvað mesta athygli þeirra í uppflettingaskránni. Þar segjast hjónin hafa boðið þeim aðilum að skýra málið við sig. Þeim hafi verið boðið að gera það eftir hentisemi, hvort sem væri að lögfræðingi viðstöddum eða ekki.

Sögð hafa tekið sér opinbert vald

Í póstinum frá lögfræðingi Landspítala segir meðal annars að sú leið sem hjónin hafi farið sé „að öllu leyti óásættanleg.“ Þau eru sögð hafa tekið sér opinbert vald með því að nálgast þennan hóp heilbrigðisstarfsmanna vegna starfa þeirra á Landspítala. Þau eru einnig sögð hafa borið upp á heilbrigðisstarfsmennina „órökstuddar ásakanir og sett þeim úrslitakosti varðandi úrlausn mála.“ Ennfremur er sagt að þetta kunni að fela í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum.

- Auglýsing -

Aðspurður hvað átt sé við þegar talað er um að setja viðkomandi aðilum úrslitakosti, segir Gunnar í samtali við Mannlíf að ekki hafi verið um neina úrslitakosti að ræða. „Við sögðum það tillögu af okkar hálfu að móttakandi bréfsins myndi huga að því að mögulega bara hitta okkur og ræða málin til að varpa ljósi á atvik og málavexti. Við myndum þá að sjálfsögðu taka vel á móti því, ef viðkomandi vildi hitta okkur og ræða þetta í trúnaði,“ segir hann.

„Síðan var það í boði ef viðkomandi vildi frekar hitta okkur og vera með lögmann með sér, ef viðkomandi teldi það þjóna sínum hagsmunum. Við höfðum þá hugsað, ef það kæmi til þess, að við værum með lögmann með okkur líka. Þriðja tillagan var að fólk myndi gefa skýrslu fyrir dómi, með stöðu vitnis. Þannig að ef fólk myndi ekkert vilja tjá sig um þetta yrði það mögulega kvatt fyrir dóm sem vitni. Þetta voru tillögur, en auðvitað engir úrslitakostir. Síðasti möguleikinn var síðan auðvitað að aðhafast ekkert, það segir sig sjálft.“

 

- Auglýsing -

Þvertekur fyrir að hafa setið fyrir starfsmönnum

Landspítali er í bréfinu til hjónanna sagður líta málið alvarlegum augum og hafi þegar sent tilkynningu til embættis héraðssaksóknara, sem fari með málarekstur er varðar brot gegn valdstjórninni. Lögregla, embætti landlæknis og persónuverndarfulltrúi Landspítala eru sögð hafa fengið upplýsingar um málið „vegna alvarleika þess.“

„Háttsemi ykkar felur í sér ólögmætt og gróft inngrip í einkalíf fjölda heilbrigðisstarfsmanna. Ljóst er að þið hafið lagt í nokkra rannsóknarvinnu við að hafa upp á umræddum starfsmönnum og hafið þið kynnt ykkur persónulega hagi nokkurra þeirra og hafið setið um einhverja þeirra. Er þessi háttsemi gerð í óþökk umræddra heilbrigðisstarfsmanna og er til þess fallin að valda hræðslu og ótta þeirra um eigið öryggi sem einnig kann að fela í sér refsiverða háttsemi, sbr. grein 232. a almennra hegningarlaga.“

Aðspurður þvertekur Gunnar fyrir það að hafa setið fyrir umræddum starfsmönnum. „Við fáum þessa raunverulegu skrá ekki fyrr en 2021 og þá koma þessi ósköp í ljós. Þar standa auðvitað nöfn starfsmannanna og starfstitlar. Það er ekkert mál að fletta því upp á já.is til þess að sjá hvar viðkomandi á heima – svo er líka hægt að fara í gegnum heimabankann í þjóðskrá til þess að senda bréf á réttan stað. Þannig að þetta snerist nú bara um að finna heimilisföng til þess að geta sent bréfin á.“

 

Hóta formlegri kæru

Í lok bréfsins frá lögfræðingnum segir eftirfarandi:

„Látið þið ekki af háttsemi ykkar og reynið að setja ykkur í samband við heilbrigðisstarfsmennina á ný, eða með öðrum sambærilegum hætti sitjið um umrædda starfsmenn eða aðra starfsmenn Landspítala mun lögreglu verða umsvifalaust gert viðvart og verður þá formleg kæra send til embættis hérðassaksóknara vegna refsiverðra brota í tengslum við þær athafnir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -