Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

„Langalangamma mín tók sitt eigið líf“ – Hildur spyr hvort sorg og kvíði gangi í ættir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Langalangamma mín tók sitt eigið líf. Hún hét Guðrún, var fædd 9.maí árið 1839 en drukknaði í Köldukvísl á Tjörnesi á miðju sumri árið 1895. Faðir minn, afkomandi hennar minntist aldrei, að mér vitandi, á þessi örlög langömmu sinnar sem honum hlýtur þó eiginlega að hafa verið kunnugt um miðað við hversu fróður hann var um sínar ættir.“

Þetta skrifar Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, í pistli sem hún birtir á vef sínum. Þar fer hún yfir harmsögu ættar sinnar. Flestir Íslendingar sem leggjast í ættfræði uppgötva, líkt og Hildur, mikla sorg. Hildur veltir því fyrir sér hvort sorgin erfðist. Hvort eitthvað sem forfeður þínir urðu fyrir valdi fóbíu þinni.

Hildur heldur áram og segir: „Þegar pabbi var á fjórða aldursári eignaðist hann bróður sem lést nokkurra mánaða gamall úr veikindum sem ég hef aldrei fengið frekari útlistun á, líklegast hefur það verið hin svokallaða barnaveiki sem var býsna skæð. Litla drengnum var gefið nafn en ég fæ hvergi staðfestingu á því hvort hann hafi heitið Ingvi eða Ingi en annað hvort nafnið var það. Systir pabba sem er sú eina er eftir lifir af upprunafjölskyldu föður míns  segir mér að í raun hafi aldrei verið talað um bróður hennar sem lést í frumbernsku en skuggi sorgarinnar grúfði yfir lífi þeirra ömmu og afa og pabba. Ekkert þeirra náði í raun háum aldri þó svo að pabbi hafi vissulega eignast mikla hamingju og ríkidæmi síðar meir í eiginkonu og börnum. Amma varð hjartveik og lést um sextugt og afi og pabbi veiktust einnig báðir um sextugt en af heilabilun.“

Hún segir föður sinn hafa tekist á við sorg með sínum hætti. „Faðir minn var næmur og listrænn maður en átti á sama tíma ekki gott með að tjá eigin líðan í orðum og forðaðist fremur að ræða sársaukafullar minningar eða upplifanir, í stað þess að ræða slíkt stóð hann frekar á fætur og tók að endurraða bókunum sínum í hífjafna röð þannig að eigi skeikaði millimetrum milli Laxness og Gunnars Gunnarssonar í brúnu tekkhillunni sem þakti vegginn inn í símaherbergi. Þetta var andsvar pabba við sársaukanum.“

Hún rifjar upp þegar faðir hennar varð æfur að frétt að hún hefði keyrt traktor. „Aðeins einu sinni man ég þó eftir að hann felldi varnir í minni návist en þá hafði mér verið falið fjórtán ára gamalli að aka dráttarvél í skógræktarvinnu í sveitinni og kom hróðug heim í hádegisverð uppveðruð af afrekum mínum af að bakka með kerru milli þess sem ég tróð upp í mig kæfubrauði og mjólk. Í miðri frásögn stoppaði faðir minn mig af gráfölur í framan og sagði orðrétt „ Hildur Eir þú mátt ekki keyra þennan traktor, ef eitthvað kemur fyrir þig verð ég geðveikur.“   Já ég segi orðrétt vegna þess að hvorki fyrr né síðar heyrði ég föður minn nota þetta orðalag. Hann var heldur ekki maður sem var eitthvað að kjá framan í mann og segjast elska mann eða þar fram eftir götunum þótt hlýjan og ástin hafi svo sannarlega skinið í gegn án orða.  Því reyndi ég ekkert að malda í móinn heldur gekk niðurlút til verkstjórans og tjáði honum að það væri föður mínum fremur á móti skapi að ég keyrði þennan traktor eða í raun alveg á móti skapi.“

Hún spyr svo að lokum hvort sorg og kvíði gangi í ættir. „Hæfileikar eru ekki það eina sem erfist heldur líka óunnin sorg og kvíði. Af hverju erum við mörg með einhverjara fóbíur eða forðunarviðbrögð sem við höfum enga röklega skýringu á? Getur verið að svarið liggi í sögunni okkar, sögu sem við jafnvel ekki þekkjum, sögu sem var aldrei sögð vegna að það var of erfitt, of sárt?“

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -