Þriðjudagur 21. janúar, 2025
-0.1 C
Reykjavik

Langlífar Jólahefðir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skemmtilegar hefðir eru eitt af því besta við jólin og það er um að gera að skapa skemmtilegar jólahefðir til að kæta mannskapinn. Það veitir nú heldur ekkert af öllu sem hressir fólk við á þessum síðustu og verstu tímum.

Öll höfum við hugmyndir um það hvernig jólin eiga að vera og flestir eiga sér sínar jólahefðir sem oft getur verið erfitt að víkja frá. Jólahefðir Íslendinga eru þó flestar tiltölulega nýjar af nálinni þótt hér hafi verið jólahald allt frá upphafi byggðar.

Við ákváðum að fara á stúfana og forvitnast um jólahefðir hjá Aldísi leikkonu, Sylvíu Briem, eiganda og verkefnastjóra, Braga Páli rithöfundi og Bergþóri Pálssyni stórsöngvara.

 

Aldís Amah Hamilton – leikkona

„Ég er enn þá að skapa mínar eigin hefðir þar sem þær hafa ekki verið margar. Síðustu jól voru öðruvísi. Fram að þeim hafði ég alltaf unnið alla hátíðina svo tíminn einkenndist af miklu stressi. Ég hafði aldrei tök á því að baka, elda, hitta vini að neinu viti eða slíkt. Svo Covid bjargaði svolítið jólunum mínum í fyrra.

- Auglýsing -

Ég og besta vinkona mín gerðum sörur frá veganistum en fram að því hafði ég aldrei haft orku í bakstur á þessum árstíma. Það er ótrúlega gaman að baka eitthvað sem einkennir jólin og er hægt að njóta bara á þeim árstíma. Það lyftir deginum aðeins, þótt það séu bara smákökur. Ég held þess vegna að bakstur sé ný hefð hjá mér.

Ein fjölskylduhefð er á afmæli mömmu. Það er á Þorláksmessu og þá hittist nánasta fjölskylda og vinir á veitingastað/kaffihúsi í miðbænum. Svolítið eins og opið hús nema hún þarf ekki að standa í græja boð degi fyrir aðfangadag. Mjög þægilegt.
Annars held ég að það verði líka hefð héðan í frá að taka mér meira frí um jólin. Bara gera minna og njóta meira … Það er lítil gleði í því að vera komin með óbragð í munninn af jólunum þökk sé „jólastressinu“!“
Bragi Páll Sigurðsson – rithöfundur

„Ætli langlífasta jólahefðin í minni fjölskyldu sé ekki sú að við setjum saman piparkökuhús og skreytum í kringum mánaðarmótin nóv-des. Þessi hefð hófst þegar ég var barn. Þá var nú ekki hægt að kaupa svona fínar og forbakaðar plötur eins og nú, heldur þurfti að skera út og síðar stimpla veggi og þak hússins, baka og vona það besta. Afleiðingarnar voru þær að húsin urðu oft mjög listræn í hlutföllum. Galdurinn við piparkökuhús er þó sá að flestar syndir er hægt að fela með slatta af nammi og glassúr. Þessari hefð hefur svo móðir mín, Jóna Dís Bragadóttir, haldið við, nánast árlega.

- Auglýsing -

Ég man þegar ég var yngri og fór til ömmu og afa í Borgó yfir jólin, þá þurfti stundum að drífa sig að berja húsið saman á meðan rútan nálgaðist Mosfellsbæ, því hefðin varð að standa. Eitt sinn þegar ég 8 ára tók ég svo þátt í piparkökuhúsa-samkeppni Kötlu. Ég skar samviskusamlega út hliðar og þak og lítinn sætan stromp. Límdi allt saman með bráðnum sykri, sem er stórhættulegt fyrir barn að vinna með, en eina alvöru efnið í svona verk.

Húsinu skilaði ég inn skreyttu og fallegu og fór svo á sýningu sem var í Kringlunni á innsendum húsum. Þar hvíldi litli, skakki og strangheiðarlegi kofinn minn, eins og illa gerður hlutur, innan um tröllvaxna turna, háhýsi og dómkirkjur, augljóslega skorna út, bakaða og skreytta af miklum fagmönnum. Gluggar úr bræddum sykri, blikkandi jólaseríur og mekanískir sveinar sem hringdu piparkökuklukkum.

Þetta fannst mér svo mikið kjaftæði að ég sór þess að taka aldrei aftur þátt. Stuttu eftir þetta var fagmönnum bannað að taka þátt, en þeir bara réðu ekki við sig og tóku þátt í gegnum ættingja og vini. Þetta var því alltsaman lagt af vegna þess að augljóslega fær enginn ráðið við keppnisskap íslenskra bakara, hvað þá um sjálf jólin.“

Sylvía Briem – eigandi og verkefnastjóri

„Ég er svakalega hefðargjörn og held fast í hefðir. Mér finnst jólin ekki endilega bundin við aðfangadag. Mér finnst jólin byrja 1. desember. Mér finnst yndislegt að fara í Garðheima og kaupa ferskt greni og greinar til þess að skreyta heimilið.

Mér finnst gaman að raða hefðunum á helgarnar rétt fyrir jólin. Þetta eru yfirleitt svo góðar fjölskyldustundir. Mér finnst yndislegt að rölta Laugarveginn, fá mér jólabolla frá Tei og Kaffi. Jafnvel fara og fá mér heitt kakó í einhverjum vagni. Fara með strákana mína á skauta á Ingólfstorgi. Baka jólasmákökur. Skreyta piparkökur. Gera jólahlaðborð heima fyrir vini. Gera litlu jól með vinkvennahópum í ljótum jólapeysum. Skrifa jólakort og myndskreyta með strákunum mínum

Ég kaupi yfirleitt alveg eins jólanáttföt á okkur öll, mér finnst yndislegt að fara út á sleða, fara svo inn, í jólanáttfötin og horfa á einhverjar skemmtilegar myndir. Oft eru þetta dýralífsmyndir, við fjölskyldan elskum það.

Ég reyni yfirleitt alltaf að hreyfa mig eitthvað á aðfangadag, finnst gott að fara í ræktina. Finnst ég fá ferskan blæ og orku inn í daginn! Ég var dugleg að fara í jólazumba hjá Hjartastöðinni.“

Bergþór Pálsson – stórsöngvari

„Í allmörg ár höfum við Albert haft þann sið að fara með pabba á aðfangadagsmorgni í stóran hring með pínulítinn glaðning til vina og kunningja. Þetta hafa t.d. verið sultur, kaffi, súkkulaði eða eitthvað ámóta og pabbi hefur lýst innihaldinu í bundnu máli með jólakveðju. Vísan er þá fest á pakkann. Þetta er yndislegur túr, enda skína sæl eftirvænting og notalegheit út úr hverju andliti.

Yfirleitt syng ég í Dómkirkjunni við hátíðarmessu Dana á Íslandi kl. 15 á aðfangadag, þannig að nú orðið tek ég smá forskot á sæluna. Þessa hefð þykir mér mjög vænt um og hlakka alltaf til.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -