Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-6.8 C
Reykjavik

Lánshæfismat hrapaði vegna sinnuleysis Motus: „Ef ágreiningur er uppi er látið vita af því“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vöktun kröfu hjá Motus hafði þau áhrif að einstaklingur hrapaði niður flokka í lánshæfismati hjá Creditinfo. Um var að ræða umdeildan reikning sem viðkomandi hafði sent til Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Viðkomandi lét Motus vita en svör bárust seint og illa; á meðan hélt lánshæfismat áfram að lækka. Motus segist ávallt láta Creditinfo vita af umdeildum kröfum og að ábyrgðin liggi þeim megin; það sé ákvörðun Creditinfo að láta vöktun umdeildra reikninga hafa áhrif á lánshæfismat. Creditinfo segja hins vegar að ef um sé að ræða umdeilda kröfu og innheimtufyrirtæki láti vita af því að svo sé, séu áhrif vöktunar ekki látin hafa áhrif á lánshæfismat.

 

Motus svaraði seint og illa

Mannlíf fjallaði á dögunum um viðskiptahætti innheimtufyrirtækja í samhengi við mál konu sem fékk senda kröfu frá Motus vegna reiknings sem hún var ekki samþykk og taldi ekki eiga rétt á sér. Konan fór með reikninginn fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og lét Motus sömuleiðis vita af mótmælum sínum og því að ekki væri sátt um reikninginn. Svör frá Motus bárust hins vegar seint og illa, en konan reyndi ítrekað að koma máli sínu á framfæri.

Þegar henni bárust loks svör var henni tjáð að krafan væri komin í löginnheimtu, með tilheyrandi kostnaði. Á meðan öllu þessu stóð var Motus með konuna í vöktun, sem hafði slæm áhrif á lánshæfismat hennar hjá Creditinfo.

Að lokum féllst Motus á að frysta kröfuna. Þá var skaðinn þó skeður og konan búin að hrapa niður um tvo flokka í lánshæfismati Creditinfo; komin í hálfgerðan ruslflokk.

 

- Auglýsing -

Motus bendir á ábyrgð Creditinfo

Mannlíf hafði samband við Motus og spurðist fyrir um verkferla þeirra og nefndi dæmi úr ofangreindu máli. Svörin voru á þá leið að Motus léti Creditinfo ávallt vita ef um umdeilda reikninga væri að ræða. Fyrirtækið þyrfti hins vegar að geta vaktað einstaklinga sem ekki greiddu kröfur, því öðruvísi væri það ekki að þjónusta sína viðskiptavini, kröfuhafana, sem skyldi.

Það væri hins vegar alfarið á ábyrgð Creditinfo að láta vöktun einstaklings vegna umdeildrar kröfu hafa áhrif á lánshæfismat viðkomandi. Lögmaðurinn sem blaðamaður ræddi við sagði að sér þætti það eðlilegt að Creditinfo tæki tillit til þessa. „Það að við séum með einhvern á vakt er eitthvað sem Creditinfo ákveður að skipti máli,“ sagði hann. „Ef ágreiningur er uppi, þá er látið vita af því til Creditinfo. Engu að síður láta þeir það hafa áhrif á lánshæfismatið.“

„Af hverju eru þeir að láta það hafa áhrif á lánshæfismatið ef tveir einstaklingar eru að rífast um það?“ sagði lögmaðurinn meðal annars í samtali við blaðamann.

- Auglýsing -

 

Creditinfo segjast taka út áhrif

Þegar blaðamaður Mannlífs sendi fyrirspurn vegna sama máls á Creditinfo fengust þau svör að Creditinfo tæki sannarlega út áhrif vöktunar á lánshæfismat einstaklinga þegar um raunverulega umdeildar kröfur væri að ræða. Í slíkum tilfellum væri það á ábyrgð Motus eða annarra innheimtufyrirtækja að láta Creditinfo vita af slíkri stöðu.

Ljóst er að í máli konunnar, þar sem sannarlega var um umdeildan reikning að ræða og látið vita af því að málið væri komið til kærunefndar, hafði vöktunin töluverð áhrif á lánshæfismatið. Áhrifin voru því ekki tekin út en af svarleysi Motus að dæma má ætla að Creditinfo hafi ekki verið látið vita af málinu. Mannlíf hefur undir höndum tölvupósta sem sýna samskiptin milli konunnar og Motus annars vegar, og Creditinfo hins vegar.

Í svari Creditinfo við fyrirspurnum blaðamanns segir eftirfarandi:

„Kröfur eru flokkaðar sem umdeildar ef hinn skráði hefur sannanlega komið andmælum á kröfu á framfæri við kröfuhafa, greint honum frá ástæðu andmælanna og krafan hefur ekki verið staðfest með aðfararhæfum dómi eða ákvörðun sýslumanns um að fullnusta kröfuna sem kunngjörð hefur verið í opinberri auglýsingu.

Í þessum tilvikum hefur vöktun innheimtuaðila engin áhrif á lánshæfismat einstaklinga. Ef Motus hefur þ.a.l. bent okkur á umdeilda kröfu í innheimtu hjá þeim hefur áhrif vöktunar verið tekin út sem áhrifaþáttur í lánshæfismati viðkomandi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -