Leigubílsstjóri á Akureyri er í tímabundnu leyfi frá störfum vegna rannsóknar lögreglunnar á meintum brotum hans í starfi.
Samkvæmt heimildum Mannlífs hefur leigubílsstjórinn verið kærður til lögreglu fyrir meint óljóst brot gegn farþega. Mannlíf sendi spurningu á leigubílastöðina þar sem maðurinn vinnur og spurði hvort rétt sé að bílstjóri á þeirra vegum sé í leyfi vegna rannsókar lögreglu á máli tengdu honum og barst eftirfarandi svar:
„Góðan daginn. Leigubílastöðin hefur vísað leigubílstjóra tímabundið frá störfum af stöðinni vegna máls sem er í rannsókn hjá lögreglunni á Akureyri.“
Mannlíf sendi einnig sambærilega spurningu á lögregluna á Akureyri en af einhverjum ástæðum vildi Skarphéðinn Aðalsteinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri ekki staðfesta þetta. „Nei, þetta get ég ekki staðfest,“ skrifaði Skarphéðinn.
Leigubílsstjórinn vildi ekki tjá sig við Mannlíf en sagðist vera með lögfræðing í málinu.