„Ofbeldi fylgir skemmtanalífinu og því lengra sem líður á nóttina því ruglaðra verður fólk og ofbeldismálin alvarlegri,“ sagði Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við mbl.is í dag.
Fjöldi útkalla lögreglu vegna ofbeldismála eykst nú aftur eftir að samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru rýmkaðar.
Útköllunum fækkaði verulega á meðan barir og skemmtistaðir voru ýmist lokaðir, eða máttu hafa opið stutt og með ströngum takmörkunum á fjölda og fjarlægð milli gesta. Nú er hinsvegar æsingurinn að ná sér á skrið.
Nóg var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um helgina, sérstaklega í miðbæ Reykjavíkur. Töluvert var um slagsmál og önnur ofbeldisbrot.
„Átök og slagsmál hafa alltaf verið fylgifiskur skemmtanalífsins. Ég held þetta sé ekki að fara í neitt sérstakt óefni,“ sagði Jóhann Karl.
Jóhann telur þróunina vera í átt að venjulegu árferði, en nú sé verið að auka löggæsluna í miðborginni eftir að dregið hafi verið úr henni þegar ástandið í faraldrinum var hvað verst.
Jóhann telur lögregluna ráða við vaxandi álag og mönnun verði komin í eðlilegt horf innan skamms.
„Við erum með nægan mannskap.“