Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Leikfélag Reykjavíkur – Elsta menningarfélag þjóðarinnar 125 ára í dag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikfélag Reykjavíkur er elsta starfandi leikfélag landsins og eitt elsta menningarfélag þjóðarinnar, en í dag, 11. janúar, eru 125 ár liðin frá stofnun þess.

Haustið eftir stofnun hóf Leikfélagið sýningar í Iðnó við Tjörnina, sem var aðsetur félagsins til ársins 1989 þegar það flutti í Borgarleikhúsið.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi.

Í 125 ár hefur Leikfélag Reykjavíkur verið leiðandi afl í leiklistarlífi þjóðarinnar. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.

Félagið var frá upphafi mjög metnaðarfullt og félagarnir tilbúnir að leggja hart að sér til að standa fyrir sjónleikjum af hæsta gæðaflokki. Ólíkt öðrum leikfélögum á landinu lagði Leikfélag Reykjavíkur áherslu á að leikarar fengju greitt kaup fyrir hvert sýningarkvöld, þó ekki væri það nóg til að þeir gætu haft viðurværi af leiklist eingöngu.

Fjárhagur Leikfélagsins var oft erfiður en metnaðarfullt starf þess skapaði því fljótlega stöðu sem ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar og má segja að það hafi gegnt hlutverki þjóðleikhúss þar til Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu var vígt 1950.

- Auglýsing -

„Mér er sem ég heyri bresti og brak“

Í tilefni af 125 ára afmæli Leikfélags Reykjavíkur stendur fyrir dyrum að flytja sviðsettan leiklestur á söngleik þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona, Delerium búbónis. Frumgerð verksins var fyrst flutt í útvarpi fyrir jólin 1954, en frumuppfærsla Leikfélagsins var frumsýnd í Iðnó í janúar 1959. Verkið hlaut fádæma vinsældir og lög Jóns Múla við texta Jónasar hafa öðlast sjálfstætt líf og sess meðal þjóðarinnar, s.s. „Söngur jólasveinanna“ (Úti er alltaf að snjóa), „Einu sinni á ágústkvöldi“ og „Ljúflingshóll“.

Til stóð að flytja verkið á afmæli Leikfélagsins, 11. janúar, en það eru fleiri sjúkdómar en delerium búbónis sem setja strik í reikninginn, en eins og segir í verkinu, „við getum jólahaldi frestað fram í mars“, og vegna gildandi sóttvarnartakmarkana hefur flutningi Deleríum búbónis verið frestað þar til betur árar.

- Auglýsing -

Leikskáld Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur

Á þessum sama degi 11. janúar hefur Birnir Jón Sigurðsson verið valinn leikskáld Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur 2022–2023.

Birnir var valinn úr hópi 25 umsækjenda og tekur við keflinu af þeim Matthíasi Tryggva Haraldssyni og Evu Rún Snorradóttur, en verk þeirra beggja verða hluti af verkefnaskrá Borgarleikhússins á næsta leikári.

Birnir Jón er tíunda skáldið sem starfar við leikhúsið undir verndarvæng Leikritunarsjóðsins sem leikskáld Borgarleikhússins og fetar hann þar í fótspor þeirra Auðar Jónsdóttur, Jóns Gnarr, Kristínar Marju Baldursdóttur, Tyrfings Tyrfingssonar, Sölku Guðmundsdóttur, Björns Leó Brynjarssonar, Þórdísar Helgadóttur auk þeirra Matthíasar Tryggva og Evu Rúnar.

Leikskáld Borgarleikhússins fær aðstöðu í leikhúsinu, vinnur þar á samningstímanum og er hluti af starfsliði Borgarleikhússins. Kappkostað er að veita leikskáldinu aðgang að allri starfsemi Borgarleikhússins og að það njóti aðstoðar, leiðsagnar og stuðnings leikhússtjóra, leiklistarráðunauta og annars starfsfólks leikhússins. Auk þess á skáldið kost á samræðum við leikara, leikstjóra og leikmyndahöfunda og að sitja æfingar á verkefnum Borgarleikhússins.

Ást og Karókí

Birnir Jón Sigurðsson útskrifaðist af sviðshöfundabraut sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands vorið 2019. Hann er starfandi meðlimur sviðslistahópanna Ást og Karókí og CGFC, en báðir hópar hafa sýnt verk undir hatti Umbúðalaust í Borgarleikhúsinu; Ást og Karókí sýndu verkið Skattsvik Development Group og CGFC sýninguna Kartöflur, sem tilnefnt var sem leikrit ársins á Grímunni 2020.

Birnir skrifaði texta barnaóperunnar Fuglabjargið sem sett var upp á litla sviði Borgarleikhússins í samstarfi við sviðslistahópinn Hin fræga önd í janúar 2021. Birnir er einn stofnenda sviðslistarýmisins Tóma rýmið, sem er vettvangur grasrótar í sviðslistum á Íslandi og vinnur markvisst að framþróun nýrra sviðsverka.

Markmið Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Formaður stjórnar Leikritunarsjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur.

Aðrir í stjórn eru Brynjólfur Bjarnason og Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri, en verkefnavalsnefnd Borgarleikhússins er stjórn sjóðsins til ráðgjafar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -