Leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Fram hafa tekið upp á því að selja „Fram bjór“ á samfélagsmiðlum sínum. Tilgangur sölunnar er að styrkja leikmennina vegna æfingarferðar erlendis. Bjórinn er skreyttur með merki félagsins og gerður í samstarfi við Litla Brugghúsið en það er þekkt fyrir að framleiða bjóra á borð við Skeggja og Bergið.
Algengt er að íþróttamenn á Íslandi selji ýmsar vörur til styrktar æfingarferðum en oft er um að ræða klósettpappír, páskaegg eða frosinn humar. Sala áfengis þykir nokkuð umdeild innan íþróttaheimsins á Íslandi og hafa ýmiss samtök sett sig upp á móti áfengissölu KSÍ á Laugardalsvelli en sambandið hefur sótt um varanlegt leyfi til slíkrar sölu. Umboðsmaður barna, Landlæknisembættið og Bindindissamtökin IOGT eru meðal þeirra sem mótmæla slíkri sölu.
Þá vekur sérstaklega athygli að í pistli sem Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, formaður Fram, skrifaði í fyrra segir hún að lýðheilsa sé mikilvæg í starfi félagsins.
„Árið 2023 var ár mikilla áfanga og framfara fyrir Knattspyrnufélagið Fram. Með hverju ári sem líður, styrkjum við stöðu okkar sem öflugt og fjölbreytt íþróttafélag, sem ekki aðeins leggur áherslu á afreksstarf, heldur einnig á lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð. Við höldum áfram að byggja á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið og stefnum að því að vera leiðandi í því að efla og styðja við heilbrigðan lífsstíl og íþróttaiðkun á öllum stigum.“
Þá segir á öðrum stað „Almenningsíþróttadeildin sinnir mjög mikilvægu hlutverki innan Fram og styður vel við stefnu félagsins að vera eftirsóknarvert félag í lýðheilsu upp öll æviskeið og að eiga hverju sinni afreksfólk og flokka sem skipa sér í fremstu röð.“
Mannlíf sendi fyrirspurn á Sigríði Elínu um málið en hún hefur ekki svarað þeirri fyrirspurn.