Leit hefur verið hætt við íshellinn á Breiðamerkurjökli eftir að í ljós kom að enginn reyndist undir ísnum. Misvísandi upplýsingar um fjölda þeirra sem voru í ferðinni varð til þess að tveir einstaklingar væru enn föst undir ísnum.
RÚV segir frá því að leit hafi nú verið hætt að ferðamanna sem taldir voru hafa orðið undir ís er hellir hrundi yfir hóp ferðamanna í gær. Enginn reyndist undir ísnum en bandarískur ferðamaður lést í slysinu og unnusta hans, einnig bandarísk, slasaðist en hún var flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi í gær og þar dvelur hún enn. Er hún ekki í lífshættu og líðan hennar stöðug.
Samkvæmt RÚV var eitt af því sem flæktist fyrir lögreglu og björgunarsveitum var að takmarkaðar upplýsingar voru til um fjölda þeirra sem var í jöklaferðinni. Ferðaþjónustufyrirtækið sagði að 25 hefðu verið í ferðinni en hafði þó ekki nöfn allra. í gær var vitað um 23 ferðalanga, þar af karlmann sem lést á vettvangi og eina konu sem slasaðist. Töldu viðbragðsaðilar að tveir til viðbótar væru enn fastir undir ísnum en svo reyndist ekki vera.
„Ljóst virðist að skráning í ferðina og utanumhald hafi ekki verið nákvæmt auk misvísandi upplýsinga um fjölda í ferðinni,“ segir í tilkynningu lögreglu. „Miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir þótti ekki forsvaranlegt annað en að halda leit áfram þar til búið væri að fá fullvissu um að enginn væri undir ísfarginu.“
Um 200 tóku þátt í leitinni í gær og í dag en lögreglan segir að mikið þrekvirki hafi verið unnið á vettvangi. Segir hún að búið sé að brjóta niður og færa svakalegt magn af ís, að mestu með handafli.