Aldrei hafa fleiri verið greindir á Íslandi með kynsjúkdóminn lekanda en greindust hér í fyrra. Samtals greindust 159 með þann leiða fjanda en tilfellum hefur farið fjölgandi síðustu ár þó tilfellunum hafi fækkað í Covid-19 heimsfaraldrinum.
Frá þessu er greint í Farsóttafréttum embættis landlæknis. Vísir sagði frá þessu á vef sínum.
Sjötíu prósent tilfellanna sem greindust í fyrra voru hjá körlum og 30 prósent hjá konum. Hefur kynjahlutfalið sveiflast á milli ára. Síðustu fimm ár hefur aldurshópurinn 25-34 ára verið sá algengasti í greiningum, fyrir utan árið 2020 er flestir voru á aldrinum 15 til 24 ára.
„Fjölgun tilfella lekanda á árinu 2022 hefur einnig sést í öðrum löndum Evrópu. Í Noregi varð aukning tilfella hjá gagnkynhneigðu yngra fólki. Sérstakar áhyggjur eru þar í landi af aukningu lekandasmita hjá ungum konum þar sem lekandi getur valdið svæsnum sýkingum og ófrjósemi hjá konum. Ekki hafa komið fram ákveðnar skýringar á þessari aukningu en ein af hugsanlegum skýringum sem sóttvarnarstofnun Noregs (Folkehelseinstituttet) hefur sett fram á þessari fjölgun lekandasmita er opnun samfélagsins á ný eftir COVID-19 heimsfaraldurinn,“ segir í Farsóttafréttum.
Einnig segir að vaxandi áhyggjur séu af sýklalyfjaónæmum lekandabakteríum.