Lenya Rún Taha Karim er orðlaus yfir góðu viðbrögðunum sem hún hefur fengið eftir að viðtal við hana birtist á Rúv á fimmtudaginn. Þar opnaði hún sig um átröskun sem hún glímir við.
Í langri þakkarfærslu á Facebook segist Lenya Rún, varaþingmaður Pírata og háskólanemi, vera orðlaus yfir þeim góðu viðbrögðum sem hún hefur fengið eftir að hún opnaði sig í viðtali sem birtist á Rúv í fyrradag, um átröskun sína og innlögn á Kleppi. Segir hún í færslunni að það sé alltaf áhætta að opna sig um geðræn vandamál en vonar að þetta geti hjálpað til við að útrýma fordómum gagnvart geðröskunum. Vonast hún einnig til að þetta hvetji fólk í sambærilegri stöðu til að sækja sér hjálp, „án þess að skammast sín“.
Sjá einnig: Lenya Rún varaþingmaður var lögð inn á Klepp viku eftir Silfrið: „Ég tek brjálæðiskast“
Þá talar hún einnig til aðstandenda fólks með átröskun og segist finna til með þeim og segir stuðninginn algjörlega ómissandi.
Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
„Ég er orðlaus yfir góðu viðbrögðunum sem ég hef fengið við viðtalinu á fimmtudaginn. Það er alltaf smá áhætta að opna sig um geðræn vandamál en ég vona innilega að þetta geti hjálpað til í átakinu við að útrýma fordómum gagnvart geðröskunum og hvatt fólk í sambærilegri stöðu til að leita hjálpar án þess að skammast sín.