30 vindmyllur verða reistar í Búrfellslundi á næstu árum en Orkustofnun veitti í dag Landsvirkjun fyrsta virkjanaleyfið fyrir vindorku á Íslandi. „Þetta er verkefni sem hefur verið lengi í undirbúningi hjá Landsvirkjun,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og orkumálastjóri, í samtali við RÚV. „Þetta er verkefni sem er búið að fara í gegnum rammaáætlun, skipulagsmál í sveitarfélagi og núna síðast voru Landsvirkjun og Landsnet að ná saman sín á milli þannig að þetta leyfi uppfyllti öll skilyrði laga og hefur nú verið veitt.“ Stefnt er á að vindorkuverið verði komið í gang árið 2026 og telur Halla að það þurfi að móta langtímastefnu í vindorkumálum landsins en vindmyllurnar sem reistar verða í Búrfellslundi mega í mesta lagi vera 150 metra háar og telst hæð spaðanna inn í þá hæðartakmörkun. Sumir telja þó að vindmyllurnar muni vera sjónmengun. Halla segir mikilvægt að horfa á jafnvægi milli náttúru og nýtingar. „Það mun reyna sífellt meira á það jafnvægi því eftirspurn eftir grænni orku, sem eru gríðarlega verðmætar auðlindir í dag, er að aukast mikið.“