„Þegar ég var hjá ömmu minni Íbí sem krakki þá tók hún á það ráð að koma ofan í mig fiski með því að búa til réttinn Surtsey! Þá stappaði hún saman fisk, kartöflur og smjör og bjó til fjall úr því. Síðan bjó hún til holu í mitt fjallið og lét leka tómatsósu niður „hlíðarnar“. Þetta kallaði hún Surtsey og ég borðaði fiskinn með bestu lyst. Tilþrifin þegar hún útbjó réttinn eru líka eftirminnileg.
Ég á líka minningar frá því þegar mamma mín tók upp á að lita óhóflega allan skapaðan mat eftir hátíðisdögum. 1. maí var allur matur rauður og á 17. júní var allt í fánalitum. Fimm ára afmælið mitt var líka litríkt og allt sem var boðið upp á hafði mamma litað í regnbogans litum. Þetta var dáldið flippað tímabili. Því miður áttum við enga myndavél á þessum tíma og því engar myndir til, en hefðum við átt hana hefði það ekki hvarflað að mömmu að eyða dýrmætri filmu í að taka myndir af mat. Ólíkt því sem við þekkjum núna.“ Þetta segir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur, þegar Mannlíf spurði hana út það hvernig kokkur hún væri.
Hvað er í matinn?
„Ég kann nokkra klassíska einfalda rétti – sem enginn á heimilinu fær leiða á því ég elda þá svo sjaldan. Annars er það maðurinn minn sem er kokkurinn og það fellur í hans hlut að brjóta heilann um hina daglegu spurningu: „Hvað er í matinn?“ Ég er hins vegar liðtækur aðstoðarkokkur og held honum félagsskap með masi og sker kannski niður grænmetið.“
Líf segist elska eiginlega allt með hvítlauki og tómatpúrru.
„Ef það er nóg af öðru hvoru er ég sátt, sérstaklega ef það er hvítlaukur í réttum. Annars eru afgangakvöldin oft best. Þá eru afgangar vikunnar lagðir á borð og það er eitthvað fyrir alla. Við hendum aldrei mat og reynum að kaupa aldrei of mikið heldur bara akkúrat passlegt. Það er samt alltaf eitthvað sem gengur ekki út og reglulega er boðið upp á afganga vikunnar á heimilinu. Afganga-kvöldverðurinnn hefur stundum leitt okkur á nýjar slóðir því stundum gerum við eitthvað nýtt úr þeim sem verður að sjálfstæðum rétti.“
Royal-búðingur í litlum glösum
Aðspurð hvað henni finnist skemmtilegast að nota í teitin segir hún:
„Það fer auðvitað eftir tilefninu en heitir brauðréttir og rækjur í chili og kóríander hafa gefist vel í okkar veislum. Mæli líka með Royal-búðingi í litlum glösum. Vekur alltaf lukku! Aðspurð hvað eigi að bjóða upp á í stórum veislum sting ég eiginlega alltaf fyrst upp á súpu. Og þá auðvitað tómatsúpu með hvítlauk. En það er ekki nema að ég geri hana sjálf að hún sé á boðstólum í okkar veislum.“
Hvernig er dæmigerður dagur hjá Líf?
„Ég bý til hafragraut á hverjum einasta virka morgni fyrir mig og næstelsta strákinn minn. Hann borðar grautinn með hnetusmjöri, döðlum og haframjólk. Minn grautur er hins vegar aldrei alveg eins. Oft bæti ég hnetum, fræjum og berjum og ávöxtum við, en nota alltaf hafra- eða möndlumjólk. Allar hinar máltíðir dagsins eru háðar aðstæðum; hvort ég sé á hlaupum að gera hitt og þetta eða á fundum eða hvort ég hafi yfirhöfuð tíma til að borða kvöldmat. Stundum gleymi ég hreinlega að borða allan daginn vegna anna. (Þarf að muna að eiga hnetur í poka í töskunni minni eða taka með mér epli á morgnana.)“
Miðjarðarhafsfæði og japanska eldhúsið standa upp úr hjá Líf.
„Ég hef annars í seinni tíð lagt áherslu vistkerafæði og reyni að kaupa sem mest lífrænt þegar því verður við komið. Ferskir ávextir, pasta, grænmeti og nýbakað brauð er það sem mér finnst best.
Chili-rækjur
Poki af rækjum
lime/sítróna
ferskt engifer – rifið
2 chili – saxað niður
handfylli kóríander – saxað
ólífuolía
Aðferð:
„Rækjurnar settar í skál. Engifer, chili og kóríander skorið fínt niður. Safinn úr lime/sítrónu kreistur yfir. Látið liggja í góðri ólífuolíu. Borið fram kælt. Ávextir, pasta, grænmeti og nýbakað brauð er það sem mér finnst best,“ segir Líf en bætir jafnframt við að kjúklingur, naut og svín sé það allra versta sem hún viti um og hún biðji aldrei um það.