Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-12.2 C
Reykjavik

Lifir einföldu lífi; dreymir um að komast burt – Á ská og skjön við allt og alla:„Ég lærði af Nóa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nói albinói er fyrsta kvikmynd Dags Kára Péturssonar í fullri lengd. Kvikmyndin lýsir sannri íslenskri stemmningu í firði fullum af snjó með nokkrum furðufuglum á stangli. Kvikmyndin er angurvær og ljóðræn þar sem dauðleikinn, örlögin og forspárgildi stýra undiröldunni, en skemmtileg húmorísk saga siglir öldutoppana.

Kvikmyndin hlaut sex Edduverðlaun árið 2003 og var send í forval til Óskarsins árið 2004. Myndin fjallar um ungan dreng að nafni Nói, sem býr í afskekktum bæ á Íslandi. Nóa gengur ekki vel í skóla og fær litla virðingu heima hjá sér. Hann kynnist ungri stelpu frá Reykjavík og ákveður að strjúka í burtu með henni. En hún er ekki á sama máli.

Myndin er borin uppi af sterkum, húmorískum samtölum og óvenjulegum persónum.

Sögunni vindur fram á rúmri viku um vetur í þorpi í djúpum firði þar sem himinhá fjöll gnæfa yfir byggðina. Nói er hvorki fullorðinn né barn heldur uppátækjasamur vandræðaunglingur sem er á skjön við allt og alla. Skólayfirvöld sveiflast á milli að telja strákinn til snillinga eða versta nemandann í sögu skólans og lögreglan hefur sínar ástæður til að hafa á honum vökult auga.

Nói er óvenjulegur 17 ára strákur sem býr í þorpi á Vestfjörðum. Á veturna er fjörðurinn einangraður frá umheiminum, umkringdur yfirþyrmandi fjöllum og grafinn undir þykku snjólagi. Nóa dreymir um að flýja þetta hvítveggjaða fangelsi og eygir loks von um láta þann draum rætast þegar hann kynnist Írisi, stúlku úr borginni sem kemur til vinnu á bensínsstöð bæjarins. Áætlanir hans um flótta renna þó klaufalega úr greipum hans og enda í algjöru klúðri. Aðeins skelfilegar náttúruhamfarir leysa Nóa úr fjötrunum og bjóða honum sýn á betri heim.

- Auglýsing -

Innilokunarkennd Nóa magnast í hlutfalli við snjóinn sem kyngir niður í plássinu. Flótti virðist vera eina undankomuleiðin, en þá grípa örlögin í taumana.

 

Snjóflóð og ófærð 

Nói albínói er tekin á Vestfjörðum og voru veðurguðirnir kvikmyndagerðarmönnunum hliðhollir eins og glögglega sést í myndinni. Snjórinn færði allt í kaf; snjóflóð og ófærð töfðu fyrir flutningum á láði og í lofti. Allt fór þó vel að lokum.

- Auglýsing -

Tómas Lemarquis lék Nóa albínóa en röð tilviljana allt frá því er hann var tíu ára olli því að hann fékk hlutverkið. Tómas vakti á sínum tíma mikla athygli fyrir leik sinn í myndinni enda eiga hann og Nói albínói ýmislegt sameiginlegt að eigin sögn.

En hvernig fékk Tómas, tiltölulega óþekktur leikari á þessum tíma, aðalhlutverkið í myndinni?

„Það var eiginlega röð tilviljana sem á rætur sínar í lítilli ákvörðun sem ég tók þegar ég var tíu ára. Ég er fæddur og uppalinn í Grjótaþorpinu og var vanur að labba niður Fischersundið og beygja inn Mjóstræti þegar ég var að leika mér. Dag einn ákvað ég að halda áfram niður Fischersund út af því að ég sá að það var eitthvað að gerast þarna niðurfrá. Það reyndist vera Ásgrímur Sverrisson að taka upp myndband með hljómsveitinni Kátir piltar. Ég spurði hvort ég mætti vera með og fékk að lokum hlutverk í myndbandinu.

Á skjön við allt og alla í samfélaginu

Ellefu árum síðar mundi Ásgrímur eftir mér og fékk mig til að leika í sínum hluta í kvikmyndinni Villiljósi. Þar sá Dagur mig og fékk mig til að leika Nóa,“ segir Tómas í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.

Persónan Nói albínói er unglingur sem er á skjön við allt og alla í samfélaginu. Hann lifir einföldu lífi í litlu þorpi úti á landi og dreymir um að komast burt. Tómas segir að persónan Nói hafi haft mikil áhrif á sig:

„Ég lærði ýmislegt af Nóa. Hann fylgir alltaf sinni sannfæringu jafnvel þótt það sem hann gerir sé ekki viðurkennt af samfélaginu. Ef hann langar að baka pönnukökur og telur það gera sér gott þá gerir hann það frekar en að mæta í skólann og láta sér leiðast. Mér finnst þetta umhugsunarvert þar sem margt í okkar skólakerfi er þannig að ekki er ætlast til nógu mikils af einstaklingunum sjálfum. Það gengur frekar út á að mata nemendur á upplýsingum en að virkja það sem einstaklingarnir hafa fram að færa.

Nói er eiginlega eins og þegar maður var krakki, þá gerði maður það sem manni datt í hug, en nú er eiginlega búið að drepa það niður því það er svo margt sem ekki má,“ segir Tómas.

„Við erum kannski ekki svo ólíkir. Nói er til dæmis bæði sérvitur og misskilinn og það getur hugsanlega átt við mig líka,“ segir Tómas sem er útskrifaður leikari úr leiklistarskólanum Cours Florent í París. Þar var hann meðal annars í bekk með leikkonunni Audrey Tautou sem lék hina ráðagóðu Amélie í samnefndri kvikmynd.

Áhugi Tómasar á leiklist og kvikmyndum nær þó lengra aftur. „Pabbi hefur alla tíð verið með mikla kvikmyndadellu og ég var ekki nema nokkurra mánaða þegar hann fór fyrst með mig í bíó í bakpoka aftan á sér. Síðan fór ég nánast vikulega með honum í bíó alla mína barnæsku. Föðurafi minn rekur svo kvikmyndafélag í París svo ég á ekki langt að sækja kvikmyndaáhugann,“ segir Tómas og segir mér að pabbi hans leiki jafnframt í Nóa albínóa:

„Pabbi leikur hlutverk frönskukennara í myndinni. Þar leikur hann atriði sem átti sér raunverulega stað í frönskutíma hjá honum, nánar tiltekið þegar leikstjórinn, Dagur Kári, nam hjá honum frönsku í MH. Þegar verið var að sýna myndina í London heyrðist mikill hlátur í salnum þegar pabbi birtist á tjaldinu og reyndist hann koma frá fyrrverandi nemendum pabba.“

„Hinn sköllótti leikarinn“

Mynd Skjáskot/RÚV

Tómas fékk fyrst áhuga á leiklist þegar hann var í grunnskóla en umsjónarkennari hans lét bekkinn árlega setja upp leikverk. Hann tók aftur upp þráðinn í Menntaskólanum við Hamrahlíð og tók ávallt þátt í uppfærslum leikfélagsins.

Að loknu menntaskólanámi vann hann á heimili fyrir þroskahefta og tók að sér ýmis verkefni. „Á þessum tíma kynnti ég meðal annars Söngvakeppni framhaldsskólanna með Ólafi Egilssyni sem er „hinn sköllótti leikarinn“. Við erum jafngamlir og okkur er mikið ruglað saman. Það vill þannig til að við erum með sama sjúkdóm, sem er sjálfsofnæmissjúkdómur og veldur því að við erum ekki með hár. Það sem gerist er að hvítu blóðkornin halda að hár séu óvinir sínir og ráðast á þau.

Sjúkdómurinn er skaðlaus að öllu leyti nema hann gerir það að verkum að maður missir hárið.Ég var þrettán ára þegar ég missti hárið sem er út af fyrir sig viðkvæmur aldur. Ég gekk alltaf með húfu og tók hana aldrei niður. Þegar ég var í MH lék ég eitt sinn persónu sem var öll rauðmáluð og þá tók ég húfuna ofan í fyrsta sinn. Þá fór fólk að segja að þetta væri töff og upp frá því hætti ég að nota húfuna. Sjúkdómurinn háir mér ekki að neinu leyti og núna myndi ég segja að þetta sérkennilega útlit mitt hjálpi mér frekar en hitt, að minnsta kosti í leiklistinni þar sem ég stend út úr fjöldanum. Ég myndi að minnsta kosti ekki vilja hár ef mér væri boðið það núna,“ segir Tómas.

Tómas sagði að upptökurnar á myndinni fyrir vestan hafi verið eitt skemmtilegasta tímabil sem hann hefði upplifað.

„Við tókum mest í Bolungarvík, á Ísafirði og Þingeyri. Það var frábær stemning í hópnum og við vorum eins og ein stór fjölskylda. Við bjuggum á Ísafirði og ekki skemmdi fyrir að Ísfirðingar eru mjög skemmtilegt fólk. Þeir eru opnir og til í að spjalla. Ég lærði líka heilmikið af þeim og hvernig það er að lifa í sífelldri baráttu við veðrið og náttúruöflin.“

 

 

Dagur Kári, leikstjóri kvikmyndarinnar útskrifaðist úr kvikmyndaskólanum í Kaupmannahöfn 1999. Lokaverkefni hans, stuttmyndin Lost Weekend, vann til alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna. 

Með stæstu hlutverkin fara Tomas Lemarquis, Elín Hansdóttir, Hjalti Rögnvaldsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Einn framleiðandanna er Philip Bober, en fyrirtæki hans hefur m.a. komið við sögu þáttanna Ríkið, eftir Lars Von Trier.

 

Heimildir:

Kvikmyndavefurinn. Slóðin: https://www.kvikmyndavefurinn.is/films/nr/211

Rsj. 2003. Lærði margt af Nóa, 23. febrúar. Morgunblaðið.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -