Laugardagur 26. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Lífsreynslusaga Mannlífs: Dagurinn sem ég gleymdi að hugsa um hann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ást er fyrirbæri sem ég taldi mig þekkja. Þetta var fremur einfalt, ef ég elska einhvern þá þarf ég að sanna mig, ég þarf að sýna fram á að ég sé þess virði að elska.

Ég fæddist inn í fremur leiðinlegar aðstæður, foreldrar mínir voru eldri en vanalegt þykir og voru fyrir löngu síðan orðin þreytt á hvort öðru.

Ég sá aldrei ást á milli foreldra minna og fékk því skakka upplifun á samböndum frá byrjun.

Í seinni tíð lærði ég að þau væru mannleg, eins og hver annar. Upplifun barna á foreldrum sínum er oft sú að þau séu eins konar æðri máttur sem skorti tilfinningar, það var allavega staðreynd í mínu tilfelli. Ég sá þau aldrei gráta eða hlæja, þau bara voru þarna. Stundum rifust þau, oftast lögðu þau ekki einu sinni á sig að hækka róminn. Ég fæddist inn í tannhjól sem löngu var skorðað, rútínan var ákveðin og ræturnar fastar.

Þegar ég varð unglingur fór ég að sækja í athygli frá hinu kyninu. Mig dreymdi um stíft samband, uppfullt af hatri, gremju og ást. Var það ekki annars þetta eftirsóknarverða við hjónabönd?

Ég fór snemma að tengja vondar tilfinningar við ást. Ég þráði umhyggju og viðurkenningu en fæddist sem viðkvæm tilfinningavera inn í tannhjól kulda og hörku. Móðir mín var óhamingjusöm, það vissu allir. Ég vissi það líka en var sannfærð um að ég væri undirstaða vansældar hennar. Kannski mætti kalla þetta eins konar misskilning, staðreyndin var sú að ég kom inn í líf óhamingjusamrar móður, en með augum lítils barns er auðvelt að sjá sannleikann í röngu ljósi. Mamma var pirruð og reið við mig, hún öskraði á mig. Það hlaut að vera ég sem stóð í vegi fyrir að hún gæti lifað hamingjuríku lífi.

- Auglýsing -

Það kemur líklega ekki á óvart að ég hafi sjálf endað í mannskemmandi samböndum. Mér var aldrei kennt hvernig karlmaður, eða nokkur annar, ætti að elska mig.

Ég kynntist fyrsta kærastanum mínum 18 ára og var með honum í nokkur ár. Hann var skólabókardæmi um alkóhólista. Ég kenndi sjálfri mér um að hann þyrfti að drekka, ég væri svo skapstór og erfið. Hvernig ætti nokkur maður að þola mig ódeyfður? Samband okkar endaði þegar að hann réðst á mig.

Ég þoldi aldrei að vera ein og var fljót að finna mér næsta mann sem gæti staðfest það að ég væri einskis virði. Engin undantekning var þar á þegar fyrsta sambandi mínu lauk. Hann bauð mér í bíltúr, ég þurfti ekki mikinn umhugsunarfrest enda líklega myndarlegasti maður sem ég hafði nokkurn tímann séð.

- Auglýsing -

Ég man skýrt eftir augnablikinu sem ég horfði fyrst í augun á honum, á bak við fegurðina var óútskýranleg illska. Þetta augnablik var fyrsta af mörgum sem voru skýr merki þess að ég hafi átt að forða mér. Hann náði mér strax, ég hafði aldrei verið eins heltekin af neinu. Líklega hefur ekki verið aftur snúið frá fyrsta augnsambandinu, ég varð hugfangin, bæði af fegurðinni og illskunni.

Við tóku ár af ofbeldi, þráhyggju, neyslu og hatri. Mér leið eins og fanga, sama hversu oft ég endaði sambandið og sannfærði sjálfa mig um að nú væri þetta búið, skreið ég alltaf aftur til baka. Ég var viss um að þarna væri ég að upplifa sterkari ást en nokkurn tímann áður, þetta væri það sem allir væru að eltast við.

Sorgin þegar hann hafnaði mér og léttirinn þegar hann tók við mér aftur kom mér í eins konar vímu. Ég hugsaði um lítið annað en hann, líf mitt fór að snúast um það að fá frá honum viðurkenningu, það gerðist aldrei. Líkamlega ofbeldið var ekkert í líkingu við það andlega, ég man sársaukann svo skýrt. Að lokum skildi hann mig eftir eins og brunarúst, gjörsamlega tóma og brotna. Hans verki var lokið.

Það tók mig þrjú ár að ná jafnvægi eftir hann, skilgreining mín á ást var skakkari en nokkru sinni fyrr. Fyrst um sinn gerði ég lítið annað en að deyfa mig, ég var hætt að nota hugbreytandi efni og sótti því í aðrar leiðir. Ég þráði ekki lengur viðurkenningu, frekar vildi ég vanlíðan og hatur. Ég var komin á þann stað að vera fullkomlega sama um aðra og fór eins og jarðýta í gegnum fjöldann allan af karlmönnum, í leit að einhverjum tilfinningum.

Ég fann þær ekki, hvorki slæmar né góðar. Mér var einfaldlega sama. Á milli þess sem ég reyndi að deyfa mig var ég með þráhyggju fyrir ofbeldismanninum og lét eins og ég væri á launum við að fylgjast með samfélagsmiðlunum hans. Þetta ástand varði í tæp tvö ár en ég lærði rólega að átta mig á eigin virði. Ég skildi betur hvaðan ég væri að koma og hversu lítið ég vissi um ást og heilbrigð sambönd.

Þegar ég kynntist manninum mínum reyndi ég ítrekað að fara frá honum, enda alveg viss um að ég bæri ekki vott af rómantískum tilfinningum til hans. Hann veitti mér öryggistilfinningu, sannfærði mig um að ég væri frábær og var minn allra besti vinur, meira var það ekki. Ég var aldrei hrædd um að missa hann, enda hafði hann ekki gefið mér ástæðu til þess. Hann reyndi ekki að breyta mér eða staðfesti á nokkurn hátt að ég væri ömurleg, það vantaði allt upp á það sem ég skilgreindi sem ást.

Blessunarlega gafst hann aldrei upp á mér og eftir nokkrar tilraunir áttaði ég mig á því hvað það væri sem fengi mig til þess að hugsa svona mikið til hans, hver væri ástæða þess að ég saknaði hans þegar hann fór.

Ég fékk loksins að upplifa ást, hún var ekki vond. Eftir nokkurn tíma af stríði við mínar eigin hugsanir rann upp sá dagur sem ég gleymdi einfaldlega að hugsa um ofbeldismanninn.

Dagarnir urðu fleiri, ég sleppti hægt og rólega takinu.

Ég var frjáls.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -