Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Lífssýn föður Svandísar lifir með henni í störfum hennar: „Mikilvægast af öllu að gera gagn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svandís Svavarsdóttir, nýskipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og fyrrum heilbrigðisráðherra, var viðmælandi Guðna Ágústssonar, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, í hlaðvarpi hans Landbúnaðarráðherra Mannlífs á dögunum. Þau fóru um víðan völl; töluðu um líf og uppvöxt Svandísar, föður hennar heitinn sem lést á síðasta ári og áskoranir sem eru framundan í nýju ráðuneyti.

 

Man ennþá lyktina úr mjólkurbúinu

Svandísi er landbúnaður í blóð borinn. Þótt hún hafi alist upp í Reykjavík voru báðir foreldrar hennar utan af landi.

„Pabbi var alinn upp í Dölum, mestanpart, og var ættaður úr Borgarfirði og Dölum. Mamma var alin upp á Selfossi en var ættuð úr Breiðafirði og af Ströndum. Þannig að þetta eru svona mínar rætur og ég hef sótt í þær heilmikið í gegnum tíðina. Ég var í sveit fyrir vestan; bæði í Dölum og svo líka á Ströndum. Svo hef ég heilmikið verið í Breiðafirði og kynnst eyjalífinu þar. Ég var heilmikið hjá afa og ömmu á Selfossi sem krakki, afi vann í Flóabúinu og amma vann í kaupfélaginu Höfn, eða í hafnarsjoppunni sem svo var kölluð. Þannig að ég hef líka miklar tengingar við Suðurland, þar sem mamma og hennar systkini ólust upp og Gummi frændi minn spilaði í Mánum, sem þótti nú flottast af öllu á þeim tíma.“

Svandís rifjar upp veru sína hjá ömmu sinni og afa á Selfossi. „Ég man ennþá lyktina, af því að ég fór stundum með afa í mjólkurbúið sem stelpa. Ég man þessa súru mysulykt sem var inni, sérstaklega í ostagerðinni. Þar var náttúrulega mikil áhersla á hreinlæti og óskaplega mikið vandað til verka. Afi sagði alltaf að það kynnu engir að búa til osta nema Flóamenn. Hann lagði mikið upp úr því að eiga góða osta.“

Svandís segir að þegar hún hafi tekið við hinu nýja ráðuneyti og sett þau gleraugu á sig, hafi hún séð hversu djúpt hennar eigin rætur tengjast landbúnaði.

- Auglýsing -

„Auðvitað hefur landbúnaður lifað með þjóðinni allt frá landnámi. Þetta hefur alltaf verið partur af daglegu lífi fólks í landinu og alþýðunnar hér.“

Guðni Ágústsson og Svandís Svavarsdóttir

Kýrnar með heimspekilegt yfirbragð

Svandís fór töluvert í sveit sem krakki og vann þar hin ýmsu verk, til dæmis að sækja kýrnar og hjálpa til við hvað það sem féll til, bæði innanhúss og utan. Hún telur sig hafa verið hinn ágætasta kúasmala.

„Mér fannst alltaf dálítið gaman að kúnum. Þær hafa svona ákveðið heimspekilegt yfirbragð. Svo var auðvitað ekkert sem jafnaðist á við það að vera krakki í stórum krakkahópi í heyskap, þegar allir voru rifnir upp og hent út af því að það var von á rigningu og það þurfti að koma öllu í hús, einn, tveir og þrír.“

- Auglýsing -
Svandís Svavarsdóttir

Fór í táknmálsfræði en ætlaði sér ekki í pólitík

Svandís kláraði stúdentspróf sitt frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, meira og minna utan skóla.

„Tvö heil ár var ég utan skóla. Ég fór þá fljótlega að eignast börn upp úr því og lærði svo í Háskólanum almenn málvísindi, sem svo voru kölluð. Síðan íslenska málfræði byggt á því og fór svo í íslenskt táknmál. Ég var í mastersnámi í íslenskri málfræði og eftir að ég hætti þar í háskólanum þá fór ég að vinna á Samskiptamiðstöð heyrnalausra, þar sem ég vann við allskonar frumkvöðulsverkefni í raun og veru, með samfélagi þeirra sem nota táknmál sem sitt fyrsta mál, í því skyni að byggja upp táknmálsmenntun við Háskóla Íslands. Táknmálsfræði og táknmálstúlkun svo seinna. Svo var ég kennari við þá deild í allnokkur ár eftir að hafa byggt hana upp með fleira góðu fólki.“

Svandís hafði framan af aldrei sérstakan metnað fyrir því að fara í pólítík – enda hafði hún bersýnilega í nógu að snúast.

„Ég byrja tiltölulega seint í pólitík, því það var aldrei planið. Ég er 42 ára þegar ég fer í borgarstjórn. Ég hef alltaf brunnið mikið fyrir samfélagsmálum og hafði gaman af þessari réttindabaráttu heyrnarlausra, fyrir stöðu táknmálsins og aðgengi að túlkum. En við pabbi töluðum alveg stanslaust um pólitík og gerðum það frá því ég man eftir mér. Ég held að ég hafi vakað mína fyrstu kosninganótt 1971. Þá er ég sjö ára. Svo skýst pabbi þarna inn í þingið og beint í ráðherrastólinn árið 1978.“

 

Pabbinn, pólitíkin og símtölin

Faðir Svandísar var Svavar Gestsson, alþingismaður og ráðherra. Fyrst fyrir Alþýðubandalagið og svo Samfylkinguna þegar hún var stofnuð. Seinna varð hann sendiherra. Um upphaf ferils Svavars í stjórnmálum rifjar Svandís upp:

„Hann þurfti að fara að kaupa sér tvenn jakkaföt, af því að hann átti engin.

En hann hættir svo í þessari pólitík í þinginu 1999 og er í raun og veru ungur maður, til þess að gera – 55 ára. Hann hafði þá verið í pólitík, fyrst sem blaðamaður og svo sem þingmaður, í hartnær 30 ár ef allt er talið. Af því að hann byrjaði mjög ungur. Það er þá í rauninni ekki fyrr en tíu eða ellefu árum síðar sem ég fer í pólitík.“

Hún rifjar upp allt tilstandið og hasarinn í kringum pólitíkina og þingstörfin eftir að faðir hennar fór út á þann vettvang.

„Það þurfti alltaf að taka símtöl, eins og það hét. Það þurfti að taka mikið af símtölum þegar heim kom. Ræða málin og fara yfir daginn í símanum. Svo náttúrulega ræða við fjölmiðla og svo framvegis. Ekki var gemsinn kominn, þannig að það þurfti að loka deginum í löngum símtölum þegar heim var komið.“

Svavar Gestsson lést árið 2021.

„Hann talaði alltaf um að það væri mikilvægast af öllu að gera gagn. Það hefur svolítið lifað með mér, ekki síst eftir að hann kvaddi alltof snemma. Að hugsa til þess hvað það er mikilvægt að gera gagn og að vera frekar í því að leysa mál heldur en að skapa vandamál.“

Svandís segir mikinn kraft hafa verið í föður sínum. „Mikill kraftur og í raun og veru alveg fram á síðasta dag. Hann var á leið vestur með hross, eins og venjulega, þegar hann fékk áfallið. Og það tók hann á rúmlega hundrað dögum.“

Svavar Gestsson

Vildi komast aftur vestur

Tengingin við sveitir landsins var afar sterk í föður Svandísar og foreldrar hennar byggðu sér skógarjörð á seinni árum.

„Það var alltaf svona hans draumur að loka þessum hring og komast aftur vestur. Hann var náttúrulega alinn upp þarna í Dölum og að hluta til í Reykjavík, og fór svo víða um lönd og álfur seinna. En hann þráði það alltaf að komast aftur vestur og þar voru þau með bæði skógrækt og æðarvarp. Hann hafði sérstakar mætur á æðarvarpinu og allskyns búskap. Svo var hann náttúrulega alltaf með hrossin, sem voru mjög mikið hans líf og yndi og snerust í raun og veru um það að það var ákveðinn þráður frá hrossunum sem voru fyrir vestan þegar hann var strákur. Hann var mjög trúr þessum uppruna sínum.“

 

Ekki bara pólitískir bandamenn – heldur líka vinir

Þær stöllur, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís hafa unnið saman um langa hríð og semur vel.

„Við höfum unnið saman og talað saman upp á hvern einasta dag síðan 2009, í raun og veru samfleytt í tólf ár. Við tvær erum þær einu sem eru á sviðinu ennþá úr ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, fyrir utan Oddnýju Harðardóttur – og erum ennþá í ríkisstjórn. Þannig að við erum í annað skiptið að ljúka fjögurra ára kjörtímabili innan ríkisstjórnar. Við erum ekki bara pólitískir bandamenn, heldur erum við líka vinir. Dálítið gaman að segja frá því að við erum líka nágrannar. Við búum í blokkum við Hjarðarhaga og Dunhaga. Þannig að við gætum gert svona eins og mann dreymdi alltaf um sem barn, að setja svona línu á milli frá svölunum á einni íbúð yfir í svalirnar á næstu íbúð og draga svo skilaboð á milli. Við gætum gert það – ef GSM-símar væru ekki komnir.

En það er mögnuð samstaða sem hefur verið á milli okkar allan þennan tíma og ég þakka það fyrst og fremst því að hún er náttúrulega eitursnjöll og mjög skörp og okkur hefur lánast að halda í húmorinn og gleðina allan tímann.

Hún er alveg einstaklega farsæl í því að leiða saman ólík sjónarmið og koma fólki að niðurstöðu – og láta fólk tala saman. Það er það sem skiptir öllu máli í pólitík, fyrr og síðar, að geta leitt saman ólík sjónarmið og fært samfélagið áfram til góðs.“

 

Sjálfbær og grænn landbúnaður í öndvegi

Svandís er bjartsýn og spennt fyrir komandi verkefnum í landbúnaði á Íslandi.

„Við ætlum að byggja upp matvælaráðuneyti þar sem landbúnaður er í öndvegi. Þar sem sjávarútvegur snýst um gæðaframleiðslu á sjávarfangi. Þar sem við horfum ennþá meira til þess sem er grænt og vænt heldur en við höfum áður getað gert. Þar sem við horfum meira til fæðuöryggis heldur en við höfum áður gert, sem snýst um það að landið sé sjálfbært um matvælaframleiðslu í hæsta gæðaflokki fyrir íbúa þess. Það getum við líka gert með því að efla lífræna framleiðslu, með því að efla áburðarframleiðslu innanlands og svo framvegis. Þarna eru fjöldamörg sóknarfæri.

En þarna er ekki bara um atvinnugrein að ræða, heldur erum við oftar en ekki að tala um fjölskyldubúið, sem er svona ákveðinn hornsteinn í þessu byggðalega og menningarlega samhengi, sem við verðum líka að gæta að.

Maður finnur það á ungum bændum, að þar er mikill sóknarhugur. En um leið miklar áskoranir og ekki síst hjá sauðfjárbændum. Afkoman er ekki góð. Fólk býr við lítil efni og sumt hvert hreinlega við fátækt. Það er ekki ásættanlegt. Þess þurfum við að horfa til þegar við leggjum grunn að nýjum búvörusamningi og öllu sem því fylgir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -