Alvarleg líkamsárás átti sér stað á Ísafirði á þriðjudaginn. Einn maður var handtekinn og brotaþolinn fluttur á sjúkrahús.
Fréttamiðillinn bb.is segir að hnífi hafi verið beitt í árásinni en lögreglan á Vestfjörðum kannast ekki við það. „Það liggur ekkert fyrir í málinu, að bitvopni hafi verið beitt, þannig að ég átta mig ekki á því hvaðan það kemur,“ svaraði lögreglan er Mannlíf spurði út í málið. „En ég get staðfest að lögreglan var kölluð í fjölbýlishús hér á Ísafirði á þriðjudaginn. Þar var einn maður handtekinn og annar fluttur á sjúkrahús með áverka.“
Aðspurð hvort áverkarnir hafi verið alvarlegir var svarið: „Já, eða svona, hugsanlega beinbrot.“
Samkvæmt heimildum er brotaþolinn maður á áttræðisaldri. Hann var fluttur á sjúkrahús en er á batavegi.