Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás í Hlíðunum í gærkvöldi en lögregla rannsakar nú mál meints ofbeldismanns. Skömmu síðar barst tilkynning um innbrot í fyrirtæki í hverfi 104. Engar frekari upplýsingar koma fram í dagbók lögreglu um málið svo óljóst er hvort þjófurinn hafi náðst.
Í Hafnarfirði stöðvaði lögregla bifreið sem hafði verið tilkynnt stolin. Ökumaðurinn og tveir farþegar voru handteknir, grunaðir um þjófnað. Allir þrír voru vistaðir í fangaklefa en ökumaðurinn er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda.
Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og endaði utan vegar vegna hálku í Mosfellsbæ í gærkvöldi. Ökumaður og farþegar voru erlendir ferðamenn en sem betur fer slasaðist enginn. Kalla þurfti til dráttarbifreið til þess að koma bílnum aftur upp á veg.