Menningar- og viðskiptaráðherra skrifaði í gær undir nýjan samning við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um að gegna hlutverki miðstöðvar máltækni á Íslandi til ársins 2027. Almannarómur heldur utan um framkvæmd Máltækniáætlunar 2 fyrir hönd ráðuneytisins og vinnur markvisst að því að tryggja að íslensk tunga verði gjaldgeng í öllum samskiptum sem byggja á tölvu- og upplýsingatækni segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Samningurinn er gerður á grundvelli markaðskönnunar sem Ríkiskaup framkvæmdu fyrir ráðuneytið í byrjun mánaðar. Almannarómur var eini aðilinn sem lýsti yfir áhuga á verkefninu og gekk ráðuneytið í kjölfarið til samninga við stofnunina, sem fór einnig fyrir framkvæmd Máltækniáætlunar 1, fyrir hönd ráðuneytisins á árunum 2019-2023.
Íslenska er gersemi
„Það gleður mig mjög að búið sé að tryggja Almannarómi traustan rekstrargrundvöll til næstu ára svo að öll sú kraftmikla máltæknivinna sem er í gangi er geti haldið ótrauð áfram. Þessi vinna snýst ekki aðeins um að við getum öll notað helstu forrit og tækni á okkar eigin tungumáli, heldur erum við að byggja brú á milli kynslóða. Tungumálið okkar er gersemi sem hefur varðveist í 1000 ár og er nú hluti af þróunarvinnu stærstu tæknirisa heims sem skilar sér í að tækninýjungar verða aðgengilegar fleirum en þeim sem eru færir í ensku og um leið varðveitir tungumálið okkar og eykur orðaforða,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra en samningurinn er til þriggja ára.
„Við tökum þessu stóra verkefni fagnandi. Framfarir á sviði máltækni síðastliðin ár hafa verið undraverðar og undirstrikað svo um munar mikilvægi þess íslenskunni sé haldið á lofti í heimi tækninnar. Tungumálið okkar er smátt og þess vegna gerist þetta ekki að sjálfu sér. Við þurfum að tryggja að íslenskan sé tilbúin fyrir tæknina og að tækni sem talar og skilur íslensku komist í allra hendur sem vilja,“ sagði Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms.