Í kvöldviðtali Mannlífs var rætt við Lindu Sæberg sem hefur upp á síðkastið verið á djúpri andlegri vegferð með sjálfri sér þar sem hún hefur verið að vinna í gömlum og nýjum áföllum. Hún hefur verið að fara í gegnum gömul áföll, breyta vöðvaminninu og lærðum hugsanavillum og skoða rótgróin samskipta- og tengslamynstur, til að breyta lífinu til hins betra.
„Ég vernda mitt orkusvið sérstaklega mikið og vel hvert orkan mín fær að fara. Hvað fær að taka pláss og hver fær að stíga inn á mitt orkusvið. Samhliða þessu hef ég verið að njóta lífsins með börnunum mínum tveimur og fólkinu í mínum innsta hring, skoða fegurðina í lífinu og móta mig sem manneskju upp á nýtt.“
Linda er móðir, kona, vinkona, systir, dóttir, frænka, barnabarn og ótal margt fleira. Hún er menntuð í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum, en rekur verslunina Unalome í dag ásamt því að sinna öðrum verkefnum tengda lífinu.
Hún er lifandi fiðrildi sem eltir töfra lífsins, nýtur fegurðarinnar, finnur tilfinningarnar og skoðar lífið og allt sem það hefur uppá að bjóða.
Iðkar sjálfsmildi og hlýju gagnvart sjálfri sér og sínum
Linda segist vera Hypersensitive Indigo Child sem túlkast sem leitandi sál, manneskja sem er forvitin um allt sem lífið hefur uppá að bjóða. Hún er mikill sjálfsástar spekúlant, iðkar sjálfsmildi og hlýju gagnvart sjálfri sér og sínum, elskar manneskjur og persónuleika þeirra, elskar sögu einstaklingsins og vil kynnast sál þeirra.
Hún segist ekki hafa komist í gegnum 39 árin áfallalaust frekar en flestir og hefur hún þurft að takast á við ýmislegt hingað til.
„Mínar helstu áskoranir í lífinu hafa verið margar og mismunandi. Það er því ekki óhjákvæmilegt að standa uppi í dag svona pínu löskuð hér og þar og vera að finna nýja leið til að halda áfram.“
Erfiðasta sem ég hef þurft að upplifa og lifa af
„Krabbameinsveikindi mín eru það erfiðasta sem ég hef farið í gegnum og mín mesta áskorun og ég ætla ekkert að gera lítið úr því, það var 100% það erfiðasta sem ég hef þurft að upplifa og lifa af. En veikindin hafa einnig verið minn helsti og mesti skóli, auk þess sem þau hafa kennt mér mest á lífið og sjálfa mig. Við það að vera kippt svona gríðarlega úr raunveruleikanum mínum og inn í eitthvað ástand sem ég hafði enga stjórn á var mikil lífsreynsla. Á þessu tímabili opnaði ég verulega augun fyrir því hvað alheimurinn og lífið voru að reyna að segja mér og höfðu í raun verið að reyna að segja mér lengi vel, en ég hlustað ekki.
Ég reyndi að hlusta á alla aðra og gera það sem allir hinir vildu að ég gerði, en inni í mér var ég alltaf tóm og óhamingjusöm.
Ég tók ákvörðun að ef ég fengi að lifa myndi ég hlusta og fylgja alheiminum, sjá leiðina mína og leyfa mér að fara þá leið sem ég á að fara. Ég hafði reynt að vera inni í þeim kassa sem samfélagið og uppeldið sagði að ég ætti að vera í. Þeim hefðbundna kassa sem okkur er talin trú um að við eigum að fylgja, og vá hvað ég reyndi. Ég reyndi að hlusta á alla aðra og gera það sem allir hinir vildu að ég gerði, en inni í mér var ég alltaf tóm og óhamingjusöm. Ég var því ákveðin í því að fylgja einungis mínu eigin innsæi, fylgja mínu eigin hjarta og mínum eigin fiðrildum og tilfinningum.
En til þess þurfti ég fyrst að fara langt inn á við til að vita hver ég var og hvað það var sem ég vildi úr lífinu. Það var því ákveðin tímamót hjá mér þegar ég horfði á sólarupprásina í Gvatemala í hugleiðslu í janúar 2020 og fann svo ákveðið og sterkt að ég vil ekki það hefðbundna og venjulega, ég vil töfrana og ævintýrin og ástina og alla litina og glimmerið og mýktina og gleðina og ég vil finna allar tilfinningarnar mínar og upplifa allt það sem lífið hefur uppá að bjóða.“
Það ríkir einstaklega falleg orka á heimilinu
Börnin hennar tvö eru hennar helsta stolt og hún dáist að því hversu dásamlega vel heppnaðir einstaklingar þau eru þrátt fyrir að þau hafi þurft að upplifa ýmislegt.
„Ég er svo ánægð með það fallega sambandi sem þau eiga sín á milli og því sambandi sem ég á við þau. Það ríkir einstaklega falleg orka á heimilinu okkar sem einkennist af miklum vinskap og væntumþykju á milli okkar þriggja.
Ég er einnig ótrúlega stolt af sjálfri mér í hvert sinn sem ég finn mig standa með sjálfri mér og finna þegar ég leyfi mér að gera það sem tilfinningin mín segir mér að gera. Þegar ég sé að ég tek ákvörðun út frá mínu hjarta og mínum tilfinningum, en ekki því sem aðrir eða samfélagið eða hið hefbundna segir að ég eigi að gera. “
Linda segir ennfremur að hún finni fyrir miklu stolti þegar hún lítur til baka og sér hversu sterk og örugg hún fór í gegnum veikindi og hversu jákvæð og lífsglöð hún kom út úr þeim.
„Ég á auðvitað mína daga eins og allir aðrir, en heilt yfir stend ég mig ótrúlega vel að standa upprétt með mín áföll í farteskinu. Ég er að vinna mig hægt og rólega út úr þeim, en á sama tíma að samþykkja að allt er þetta partur af sögunni minni og allt gerði þetta mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.“
Ég elti ævintýri lífsins
Framundan hjá Lindu er margt mjög spennandi og hana hlakkar mikið til þess sem koma skal.
„Ég elti ævintýri lífsins og fylgi því sem alheimurinn færir mér hverju sinni. Að þessu sinni er ég að skoða þau verkefni sem eru að bjóðast og finna þau sem kalla á mig og hvaða verkefni passa inn í mitt orkusvið. Mér finnst svo margt spennandi og heillandi svo verkefnin eru ólík, en það er það sem gefur þessu lit. “
Það er svo sannarlega kominn jólastemning í Unalome og fólk er tímanlega að versla jólagjafir í ár að sögn Lindu. Hún hefur verið er versla inn nýjar vörur sem verða komnar fyrir jólin og segir að lokum að:
„það sé alltaf mjög gaman að aðstoða fólk að kaupa jólagjafir handa ástvinum sínum fyrir jólin. “
Hér er hægt að finna slóðin á Unalome verslun.
Instagram: @lindasaeberg