Sunnudagur 19. janúar, 2025
3.3 C
Reykjavik

Listin að láta sér leiðast

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú ætla ég að fá að tala eins og gamall karl í þessum pistli, ekki að ég sé eitthvað sérstaklega ungur, er miðaldra. Sem sagt, krakkar nú til dags … þetta er þannig pistill.

Ég er eins mikið „eítís“-barn og hugsast getur, þar sem ég fæddist árið 1980. Ég er að hluta til alinn upp í Trékyllisvík, en þar fékk maður að vera í lausagöngu frá morgni til kvölds. Okkur krökkunum var hleypt út á morgnana á sumrin og svo var kallað á okkur í hádegismat. Eftir hádegi fórum við aftur út og komum aftur inn þegar kvöldmaturinn var tilbúinn. Og hvað gerðum við úti? Allt sem barnaheilunum gat dottið í hug. Við vorum nefnilega það heppin að einu miðlarnir sem þekktust á þessum árum voru útvarpið og sjónvarpið. Engir samfélagsmiðlar, engir snjallsímar, ekkert sem gat kaffært hugann. Ég viðurkenni að sumt sem við tókum okkur fyrir hendur er ekki prenthæft, en margt af því var frábær vitnisburður um það sem fólki getur dottið í hug, þegar því leiðist.

Í dag kunna krakkar ekki að láta sér leiðast og það er alls ekki þeim sjálfum að kenna, heldur okkur foreldrunum og kannski samfélaginu í heild líka. Börn verða sífellt yngri eigendur snjallsíma, spjaldtölva, snjallúra og hvað þetta heitir allt. Frá því að þau eru smábörn er afþreyingu skellt í andlitið á þeim, svo þau þurfi nú ekki að láta sér leiðast, Guð forði þeim frá því! Vegna þess að þá gæti þeim dottið eitthvað frumlegt í hug. Nú er ég kannski að ýkja svolítið, börn fara alveg út að leika sér árið 2023, en þau taka samt yfirleitt með sér snjallsímana og ég hef oft séð krakka að „leik“ saman þar sem þeir standa eins og uppvakningar með augun föst í símunum sínum, jafnvel að senda hvort öðru eitthvað ómissandi af TikTok. En já, þetta er auðvitað ekki þeim að kenna. Sjálfur á ég dóttur sem er ansi háð símanum sínum, þótt hún sé að reyna sitt besta, greyið, við að minnka „neysluna“. Oftar en ég get talið hefur hún kvartað í mér, að henni leiðist og lætur það hljóma eins og einhvern skelfilegan hlut, þjáningu jafnvel og ég hef alltaf svarað eins; „Gott“, því þá er hægt að æfa ímyndunaraflið sem ég veit að hún er stútfull af. Ég sjálfur er afar háður mínum síma, þrátt fyrir flaumrænt uppeldi (e. analogue) og get því nákvæmlega ekkert sagt, þannig séð, annað en að hvetja hana til að láta símann frá sér reglulega og láta sér leiðast, það er aldrei að vita hvaða snilld kemur út úr því.

Pistill þessi birtist í nýjasta blaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -