Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

„Litlu stóru mál“ Bjarna – Leggur áherslu á mikilvægi lista

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og flestir vita eru alþingiskosningar handan við hornið og kosningabarátta flokkanna í fullum gangi. Eins og getur og gerist eru málefni sem eru lykilatriði í kosningabaráttu og fyrir þessar kosningar hafa húsnæðismál, vextir, verðbólga og málefni hælisleitenda verið aðalmálin hingað til.

Mannlíf vildi vita meira um stór og mikilvæg málefni sem hafa ekki fengið mikið pláss í umræðunni hingað til og sendi tíu spurningar á alla formenn og leiðtoga þeirra flokka sem eru í framboði og mun Mannlíf birta svör allra þeirra sem svöruðu. Við nefnum þessi málefni „Litlu stóru málin“

Við byrjum á Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins.

1. Vilt þú leyfa aukið frelsi í veðmálastarfsemi á Íslandi og af hverju?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á frelsi einstaklingsins og atvinnufrelsi og er tilbúinn í umræðu um aukið frelsi í veðmálastarfsemi. Það er þó mikilvægt að tryggja að slíkt frelsi sé veitt með ábyrgum hætti og að tekið sé tillit til þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu.

2. Hver er þín afstaða gagnvart réttindabaráttu trans fólks á Íslandi?

- Auglýsing -

Sjálfstæðisflokkurinn styður heilshugar réttindabaráttu trans fólks, enda er frelsi einstaklingsins og jafnrétti til tækifæra grundvallaratriði í stefnu flokksins. Mikilvægast er að tryggja að allir einstaklingar hafi frelsi til að vera þeir sjálfir og njóta jafnra tækifæra í samfélaginu. Ísland hefur náð miklum árangri í réttindabaráttu hinsegin fólks og er í öðru sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks, sem sýnir fram á að við erum á réttri leið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt sér fyrir réttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og hefur talað skýrt fyrir réttindum þess í tvíhliða samskiptum við önnur ríki sem og á vettvangi alþjóðastofnana. Flokkurinn er staðráðinn í að standa vörð um mannréttindi og frelsi allra einstaklinga, þar á meðal trans fólks, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

Það er mikilvægt að við höldum áfram að vinna að því að tryggja að réttindi trans fólks séu virt og að þau njóti sömu tækifæra og aðrir í samfélaginu. Þetta er hluti af frelsisstefnu Sjálfstæðisflokksins þar sem frelsi og jafnrétti eru í forgrunni.

3. Hvað finnst þér um að ríkið styrki listir og menningu?

- Auglýsing -

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á mikilvægi þess að styðja við listir og menningu. Á kjörtímabilinu höfum við tryggt sama aðgengi að Listaháskólanum og öðrum háskólum með afnámi skólagjalda sem var löngu tímabært.

Sjálfstæðisflokkurinn breytti lögum um tekjuskatt þannig að höfundarréttargreiðslur eru nú skattlagðar sem fjármagnstekjur en ekki launatekjur. Þannig hafa skattar – ekki síst á listamenn lækkað verulega að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins. Endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hafa stóraukist og framlög til lista, menningar, íþrótta og æskulýðsmála hækkað gríðarlega undanfarin ár. Auk þess innleiddi Sjálfstæðisflokkurinn sérstakan skattaafslátt vegna styrkja til almannaheillasamtaka, þar með talið menningarstofnana og félaga á því sviði.

Við viljum áfram styðja við listamenn og ýta undir að hér geti öflugt og hvetjandi menningarumhverfi skotið rótum. Sterk söfn og hefðbundnar menningarstofnanir ásamt öflugum verkefnasjóðum geta lagt sitt af mörkum til að hlúa að sjálfbæru menningar- og listastarfi en fyrst og fremst er það frumkvæði listafólks sem þarf frjóan jarðveg til að geta dafnað án þess að vera of háð opinberum afskiptum.

4. Ert þú fylgjandi því að Ísland verði gert að einu kjördæmi í Alþingiskosningum og af hverju?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að ákvæðum í stjórnarskrá um kjördæmaskipan og jöfnun atkvæða verði breytt. Ráðast þurfi í endurskoðun á þeim ákvæðum sem þessu tengjast í stjórnarskrá og kosningalögum. Það er mín tilfinning að kjósendum í landinu þyki kjördæmin vera of stór, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég finn fyrir því að í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi er fjarlægðin á milli kjörinna fulltrúa og fólksins of mikil og ég vil vinna að hugmyndum um breytingar sem draga úr stærð kjördæmanna.

5. Hversu mikilvæga telur þú kristni vera í íslensku samfélagi í dag?

Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um trúfrelsi gerum við okkur grein fyrir því að kristni hefur verið hluti af íslensku samfélagi í aldanna rás og hefur mótað menningu og siði þjóðarinnar. Ég hef lagt áherslu á mikilvægi þess að viðhalda þeim gildum sem hafa lagt hér grunn að samfélagi þar sem jafnrétti, frelsi og tækifæri fólks til að blómstra á eigin forsendum eru í fremstu röð.

6. Hvað finnst þér um aðstöðu til íþróttaiðkunar á Íslandi?

Aðstaða til íþróttaiðkunar á Íslandi hefur verið í mikilli þróun og hefur skilað miklum framförum á undanförnum árum. Ég hef áður lýst skoðun minni um mikilvægi þess að reisa knatthús og yfirbyggð íþróttamannvirki, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Þéttleiki slíkra mannvirkja er einstakur vegna norðlægrar staðsetningar landsins og þörf fyrir slíka aðstöðu.

Það er mikilvægt að við höldum áfram að styðja við uppbyggingu íþróttamannvirkja, þar sem þau hafa jákvæð áhrif á árangur okkar í íþróttum og stuðla að bættri heilsu og vellíðan í samfélaginu. Við þurfum að skoða hvernig við getum best stutt sveitarfélögin og íþróttafélögin í þessari uppbyggingu, til að tryggja að allir hafi aðgang að góðri aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að skapa hvetjandi umhverfi fyrir íþróttir og æskulýðsstarf, þar sem einstaklingar geta blómstrað og náð árangri.

7. Hvað finnst þér um fjárhagsstuðning ríkisins við stjórnmálasamtök?

Fjárhagsstuðningur ríkisins við stjórnmálasamtök er umdeilt mál. Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins ályktaði fundurinn að afnema skyldi opinbera styrki til stjórnmálaflokka og hækka hámarksframlag annarra aðila í staðinn. Þessari ályktun hafa þingmenn flokksins fylgt eftir í verki. Hefur Diljá Mist Einarsdóttir t.a.m. ítrekað lagt fram frumvarp sem miðar að því að draga úr opinberum styrkjum til stjórnmálaflokka og auðvelda þeim sjálfstæða tekjuöflun. Í því frumvarpi er einnig lagt til að þröskuldurinn til að hljóta framlag frá hinu opinbera skuli hækkaður úr 2,5% í 4% atkvæðamagn. Þetta tryggir að flokkarnir verði áfram bundnir af skýrum reglum um gagnsæi, og framlög frá óþekktum aðilum verða áfram bönnuð

8. Hvað finnst þér um blóðmerahald?

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur atvinnufrelsis. Við leggjum áherslu á að fólk hafi frelsi til að stunda sína iðju og byggja upp verðmæta atvinnustarfsemi. Að sjálfsögðu þarf alltaf að stuðla að góðum búskaparháttum og tryggja að lögum um dýravelferð sé fylgt. Það hefur mér enda sýnst vera raunin í yfirgnæfandi meirihluta tilfella.

9. Telur þú að þjóðin eigi að fá að kjósa um inngöngu í ESB og af hverju?

Sjálfstæðisflokkurinn telur að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið utan ESB. Við höfnum töfralausnum þeirra sem vilja selja kjósendum evrópska vexti án samhengis við fylgifiskana.

Á Evrusvæðinu er atvinnuleysi yngra fólks yfir 15%, fátækt margföld á við Ísland og algjör stöðnun í nýsköpun. Þess vegna eru vextirnir lágir. Það er ekki hægt að kaupa bara hálfan pakkann. Við eigum að standa vörð um íslensk tækifæri innan EES, ekki með ESB-aðild. Samningurinn hefur tryggt okkur tækifæri til að ferðast, mennta okkur og búa um allt í Evrópu. Með veru okkar í EFTA, ekki ESB, höfum við gert frábæra fríverslunarsamninga, m.a. við Indland, stærsta ríki í heimi. Slíkan samning hefur ESB ekki tekist að gera. Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að vera vel ígrundaðar og spurningar sem lagðar eru fyrir þjóðina skýrar. Það er ekki burðugt að tala fyrir því einu að kjósa eigi um aðild, án þess að geta fært rök fyrir kostum aðildarinnar sjálfrar.

10. Hver er þín afstaða til stjórnarskrá Íslands?

Stjórnarskrá Íslands er okkar mikilvægasta skjal, grundvallarlög okkar Íslendinga þar sem réttindi okkar og stjórnskipan eru varðveitt. Henni hefur verið breytt af mestu varfærni og ákvæði uppfærð í takt við tímann í áranna rás og reynst haldgóð þegar á reynir. Henni verður hins ekki kollvarpað með einhvers konar áhlaupum, eða skipt út í heild fyrir einhvers konar umdeild drög að nýju skjali eins og það leggur sig. Breytingar á stjórnarskrá þarf að nálgast af yfirvegun og með breiðum stuðningi þjóðarinnar. Undanfarið hafa formenn allra flokka á Alþingi verið að skoða mögulegar breytingar á nokkrum ákvæðum. Mér finnst að horfa mætti til kafla um forseta Íslands, Alþingis og dómstóla auk þess sem skoða mætti ákvæði um kjördæmaskipan og jöfnun atkvæða. Markmiðið ætti ávallt að vera að treysta enn frekar lýðræðið í landinu. Tímabært er að endurskoða ákvæði um Landsdóm og gera breytingar á meðferð ákæruvalds vegna ráðherraábyrgðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -