Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í nótt.
Mikið var um að lögregla þyrfti að hafa afskipti af gleðskap í heimahúsum og var mikið um kvartanir yfir hávaða. Sömuleiðis var töluvert um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Lögregla þurfti að hafa afskipti af konu sem grunuð var um að hafa stolið úr apóteki. Konan var í annarlegu ástandi og var einnig að reyna að komast yfir spritt til að drekka.
Eitthvað var um að lögregla þyrfti að hafa afskipti af stöðum þar sem sóttvarnarreglur voru brotnar, til að mynda tónleikastað og veitingastöðum. Á einum veitingastaðnum, í miðbæ Reykjavíkur, var fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt.
Eitthvað var um innbrot í nótt. Í miðbæ Reykjavíkur er maður grunaður um að hafa brotið rúðu í fjölbýlishúsi. Þegar lögreglu bar að garði var maðurinn kominn inn á stigagang í húsinu. Málið er í rannsókn og maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu. Í miðbænum var annar maður grunaður um innbrot. Sá var í annarlegu ástandi þegar lögreglu bar að garði, en tilkynning hafði borist um yfirstandandi innbrot. Þegar lögregla kom á staðinn var maðurinn búinn að brjóta rúðu og stormjárn á glugga. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Í Grafarvogi var tilkynnt um þjófnað í verslun. Þar var maður búinn að setja vörur fyrir rúmlega 33.000 krónur í bakpokann sinn. Maðurinn varð þess var að starfsmenn verslunarinnar fylgdust með honum og var búinn að taka vörurnar aftur úr bakpokanum áður en lögregla kom á vettvang.
Annar maður gerði tilraun til þess að komast út úr verslun með fulla matarkörfu. Starfsmaður og vegfarandi höfðu afskipti af manninum fyrir utan verslunina og sögðu honum að láta körfuna frá sér. Maðurinn kastaði körfunni þá frá sér og hljóp á brott.