Lögregla sinnti heldur óvanalegu útkalli í gærkvöldi eftir að tilkynning barst um ungmenni að reyna að lokka til sín dúfur og handsama þær. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að ungmennin voru með gildru og höfðu þegar handsamað tvær dúfur og sett ofan í bakpoka sem þau höfðu meðferðis. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvernig málinu lauk.
Síðar um kvöldið þurfti lögregla að hafa afskipti af tveimur karlmönnum í annarlegu ástandi. Annar þeirra var öldauður í anddyri hótels en gekk hann sína leið þegar lögregla vakti hann. Tvær tilkynningar bárust lögreglu um grunsamlegar mannaferðir og aðrar tvær vegna líkamsárásar. Þá var brotist inn í heimahús í Garðabæ þar sem verðmætum var stolið en þjófurinn hefur enn ekki náðst. Auk þess sinnti lögregla reglubundnu umferðareftirliti og stöðvaði ökumann sem grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna.