Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn á máli sem snýr að stórfelldu fíkniefnabroti samkvæmt tilkynningu frá henni.
„Um er að ræða innflutning á tæplega 6 kg af kristal metamfetamíni, en það fannst í bifreið sem var flutt sjóleiðis til landsins. Þetta er stærsta haldlagning á kristal metamfetamíni í einu máli hérlendis,“ segir í tilkynningunni.
„Ráðist var í viðamiklar aðgerðir þegar málið kom upp og voru alls átta handteknir í þeim. Fjórir þeirra hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í lok október. Rannsókn málsins var mjög umfangsmikil, en það er nú komið í ákærumeðferð hjá embætti héraðssaksóknara.“